Ríkisfyrirtækið Íslandspóstur reiddi fram samtals 29,5 milljónir króna fyrir fimm jeppa og einn fólksbíl sem forstjóri og framkvæmdastjórar fyrirtækisins hafa til umráða samkvæmt ráðningarsamningum. DV greinir frá þessu.

Þar kemur fram að kostnaður bifreiðanna hafi numið alls 8,8 milljónum króna á síðasta ári. Um er að ræða tvo jeppa af gerðinni Ford Explorer, tvo Land Cruiser-jeppa, einn Ford Expedition og einn Volvo V70. Að meðaltali voru greiddar 4,9 milljónir króna fyrir hvern bíl.

„Bifreiðaafnotin eru hluti af ráðningarsamningi og það hefur ekki komið til tals að segja upp ráðningarsamningum við framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Ákvörðun um val bifreiða tekur meðal annars mið af fjölda ferða og vegalengdum, sem einstakir framkvæmdastjórar þurfa að fara vegna starfa sinna víða um land,“ segir í skriflegu svari Íslandspósts til DV.

Segir einnig í svari Póstsins að fyrirtækið hafi á að skipa öflugu stjórnendateymi og það eigi eins við um stjórnendur sem aðra starfsmenn fyrirtæksins, að það verði að vera samkeppnishæft í launum til þess að eiga kost á að laða til sín hæfa starfsmenn. Bifreiðaafnot framkvæmdastjóra séu hluti af því.