*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 7. janúar 2021 13:14

Stjórnendur Póstsins „stórskaði samkeppni“

FA telur stjórnendur Íslandspósts hafa á undanförnum misserum tekið ákvarðanir sem stórskaði samkeppni á póstmarkaði.

Ritstjórn
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Aðsend mynd

Félag atvinnurekenda (FA) telur stjórnendur Íslandspósts hafa á undanförnum misserum tekið ákvarðanir sem stórskaði samkeppni á póstmarkaði. Þá telur félagið ástæðu til að spyrja á hvaða vegferð hin pólitískt skipaða stjórn ríkisfyrirtækisins sé. Þetta kemur fram í frétt á vef FA.

„Í maí síðastliðnum kynnti Íslandspóstur þau áform sín að fella niður magnafslætti af reglubundnum viðskiptum. Gangi þau áform eftir, munu tveir keppinautar Póstsins, póstsöfnunarfyrirtækin Póstmarkaðurinn og Burðargjöld, neyðast til að hætta starfsemi. Hér er um að ræða fyrirtæki sem safna saman pósti frá stórnotendum, t.d. bönkum og tryggingafélögum, og miðla áfram til Íslandspósts, sem hefur enn í reynd einokunarstöðu á markaði fyrir bréfapóst, þótt einkaréttur fyrirtækisins hafi verið afnuminn með lögum í ársbyrjun 2020. Afsláttur upp á 2-5% hefur verið veittur þessum fyrirtækjum vegna þess hagræðis sem Pósturinn hefur af reglubundnum viðskiptum með mjög mikið magn bréfa frá söfnunarfyrirtækjunum. Viðskiptavinir söfnunarfyrirtækjanna njóta fyrir vikið mun betri kjara en þeir myndu njóta í beinum viðskiptum við Íslandspóst. Breytt póstlög gera áfram ráð fyrir að afslættir af þessu tagi séu veittir,“ segir í frétt FA.

Telur FA að ef þessir magnafslættir verði afnumdir muni það kippa grundvellinum undan rekstri söfnunarfyrirtækjanna sem myndu þá neyðast til að hætta rekstri. Viðskipti þeirra muni þá falla ríkisfyrirtækinu sjálfu í skaut sem styrki einokunarstöðu þess enn frekar. Er það mat FA að gjaldskrá til notenda póstþjónustu, sem í dag skipta við söfnunarfyrirtækin en myndu neyðast til að skipta við Íslandspóst, myndi hækka um allt að 70%. Auk þess þegar 15% hækkun á gjaldskrá bréfapósts hjá Póstinum um áramót sé tekin með í reikninginn, geti hækkunin numið allt að 96%.

Pólitísk stjórn reyni að drepa samkeppni

Póst- og fjarskiptastofnun hafi frestað gildistöku þessarar gjaldskrárbreytingar Íslandspósts til ársloka, en hafi nú birt ákvörðun, þar sem komist sé að þeirri niðurstöðu að rökstuðningur Póstsins fyrir niðurfellingu afsláttanna sé fullnægjandi og ekki tilefni fyrir stofnunina að grípa inn í málið. Mun niðurfelling afsláttanna því taka gildi eftir mánuð.

Telja verði fullvíst að söfnunarfyrirtækin skjóti málinu áður til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Í ákvörðun PFS komi fram það mat Samkeppniseftirlitsins að fram séu komin sjónarmið um að ákvörðun Póstsins um niðurfellingu afsláttanna kunni að fela í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu ríkisfyrirtækisins.

Lýsir FA mikilli furðu á að hin pólitískt skipaða stjórn Íslandspósts skuli með þessum hætti fylgja fram áformum um að ganga á milli bols og höfuðs á keppinautum fyrirtækisins. „Við botnum ekkert í því að trúnaðarmenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi, sem ákveða gjaldskrá félagsins, skuli þannig vitandi vits reyna að drepa niður samkeppni á póstmarkaðnum og ná viðskiptum af einkafyrirtækjum til ríkisfyrirtækisins," er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra FA.

„Stjórnin brugðist eftirlitsskyldum sínum“

Vísar frétt FA einnig til forsíðufréttar Viðskiptablaðsins í síðasta tölublaði síðasta árs. Þar kom fram að gjaldskrá Póstsins vegna pakkadreifingar, sem tók gildi í ársbyrjun 2020, og feli að mati FA í sér ólöglega undirverðlagningu, hefði ekki verið borin undir stjórn fyrirtækisins.

„Samþykktir Póstsins segja skýrt að stjórn félagsins skuli taka ákvarðanir um gjaldskrá í samræmi við þau lög sem um rekstur félagsins gilda. Hafi þáverandi forstjóri ekki borið gjaldskrána undir stjórn, felur það í sér brot gegn samþykktum félagsins. FA vakti athygli á hinni ólöglegu gjaldskrá strax í janúar í fyrra. Hafi stjórnin ekki gripið inn í málið síðan, hefur hún brugðist þeim eftirlitsskyldum sem hún gegnir, samkvæmt hlutafélagalögum og samþykktum félagsins. Stjórnarmenn geta því borið ábyrgð á hinni ólögmætu undirverðlagingu. Með henni er rekstrarhæfi félagsins ógnað." er jafnframt haft eftir Ólafi í frétt FA.

Stikkorð: Íslandspóstur samkeppni FA gjaldskrá