Forstjóri Össurar hf. og framkvæmdastjórar hafa selt stærstan hluta hlutabréfa sinna í félaginu, alls 23.441.801 hlut eða 5,6% af heildarhlutafé félagsins. Stærstur hluti bréfanna var upphaflega keyptur á hlutabréfamarkaði og fjármagnaður að nokkru leyti með lánsfé segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Bréfin eru seld til uppgjörs á þeim skuldum. Össur hf.  eða aðrir hluthafar Össurar hf. hafa aldrei veitt stjórnendum lán eða ábyrgðir segir í tilkynningunni.

Kaupandi hlutabréfanna er danska fjárfestingafyrirtækið William Demant Invest A/S. William Demant Invest hefur verið stærsti hluthafi Össurar frá árinu 2005 og eykur við kaupin hlut sinn úr 34,3% af heildarhlutafé í 39,9%.

Þessar eignabreytingar leiða ekki til skyldu til að gera yfirtökutilboð í hlutabréf annarra hluthafa, þar sem nýsamþykktar breytingar á yfirtökureglum laga um verðbréfaviðskipti hafa ekki formlega tekið gildi.

Engar breytingar eru fyrirhugaðar á rekstri Össurar hf., hvorki á Íslandi né annarsstaðar, í kjölfar þessara viðskipta.

Jón Sigurðsson forstjóri Össurar hf.: "Við sjáum verulega eftir þessum hlut okkar í félaginu en verðum að sætta okkur við að hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að halda hlutabréfunum. Össur hf. er gott og fjárhagslega sterkt fyrirtæki.  Áherslan hefur alltaf verið jafnt á vöxt og hagnað, sem nú skilar sér í að félagið er eins vel undirbúið fjárhagslega og hægt er fyrir þær sviptingar sem nú ríða yfir."