Stjórnendur bresku matvöruverslunarkeðjunnar Somerfield munu hafna kauptilboði fjárfestahóps, sem leiddur er af kaupsýslumanninum Robert Tchenguiz, ef það verður lægra en 200 pens á hlut, segir í frétt breska dagblaðsins The Guardian.

Auk Tchenguiz inniheldur hópurinn breska bankann Barclays Capital og fjárfestingasjóðinn Apax Partners. Baugur neyddst til þess að hætta þáttöku vegna Baugsmálsins en félagið, með hjálp Kaupþings banka, myndaði hópinn og leiddi fjárfestana saman.

Tilboðsfresturinn rennur út þann 14. október.

Baugur gerði óbindandi tilboð í Somerfield í febrúar sem hljóðaði uppá 190 pens á hlut. Síðan hafa hlutabréf í félaginu hækkað töluvert og ekki er talið að stjórendur Somerfield taki tilboði sem er lægra en 200 pens á hlut.

Lífeyriskuldbindingar Somerfield eru hærri en búist var við og nema um 112 milljónum punda. Tchenguiz-hópurinn er talinn vilja gera lægra tilboð í Somerfield, meðal annars vegna lífeyrisskuldbindinga félagsins.

Stjórnarformaður Somerfield hefur þó bent á að Somerfield hafi ekki leitað eftir kaupanda og neyðist þess vegna ekki að selja ef tilboðið reynist ekki fullnægjandi. Talið er að Somerfield muni sækjast eftir kauptilboði í félagið sem hljóðar uppá 205 pens á hlut. Miðað við það er markaðsvirði Somerfield um 1,12 milljarður punda.