Stjórnendur Stork Food Systems einingar hollenska iðnaðarrisans Stork NV vilja frekar sameiningu við Marel Food Systems en að upplifa yfirtöku breska fjárfestingafélagsins Candover. Hefur Dow Jones Newswires þetta eftir heimildarmönnum sem nátengdir eru samsteypunni.

"Innan deildarinnar er Marel í uppáhaldi, " er haft eftir einum heimildarmanni. Annar heimildarmaður segir: "Marel er frábært fyrirtæki sem fellur vel að starfsemi Stork Food Systems. Svo er að alltaf spurning hvað gerist til lengri tíma litið varðandi hlutabréfasjóði."

Venjulegir hlutabréfasjóðir þurfa stuðning stjórnenda þess félags sem verið er að yfirtaka. Eftir að kaup hafa gengið eftir halda stjórnendateymi þó oft áfram störfum til að hjálpa til við reksturinn. Candover hefur notið stuðnings yfirstjórnar Stork.

Dow Jones segir að oftar en einu sinni hafi borist fréttir af því að Marel hafi boðið í Stork Food Systems deildina. Tilboðum hafi ávallt verið hafnað af stjórnendum Stork samsteypunnar á þeim forsendum að þau hafi verið of lág.
Dow Jones segir að sérfræðingar hafi metið verðmæti Stork Food Systems á bilinu 300 til 400 milljónir evra, eða sem svarar til um 26,3 til 35 milljarða króna. Sameinað fyrirtæki Marels og Stork Food Systems yrði leiðandi á heimsmarkaði í smíði slátrunarbúnaðar fyrir alifuglaframleiðslu.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.