Ástæða er til að ætla að í eðlilegu árferði tapi fyrirtæki og stofnanir 5% af árlegum tekjum sínum vegna misferlis. Séu tölurnar heimfærðar á Ísland og miðað við starfsemi fyrirtækja árið 2009 má því gera ráð fyrir að tap vegna misferlismála nemi um 75 milljörðum króna. Þetta kemur fram í grein Jóhanns G. Ásgrímssonar, deildastjóra hjá ríkisskattstjóra sem birtist í Tíund í desember sl., en með misferli (e. fraud) er átt við fjársvik, blekkingar og misnotkun. Tölurnar sem Jóhann vísar í eru byggðar á rannsókn Association of Certified Fraud Examiners (ACFE). Jóhann segir í grein sinni að árið 2009 hafi verið mjög óvenjulegt ár á Íslandi og því megi ætla að um talsvert hærri tölu gæti verið að ræða. „Engar sérstakar forsendur standa til þess að ætla að Íslendingar séu dyggðugri þjóð í fjármálum en aðrar. Það sem meðal annars gerir þessa skýrslu ACFE athyglisverða er hvað misferlisbrot eru einsleit, hvort sem þau eru framin í Evrópu, Asíu, Afríku eða Ameríku,“ segir Jóhann í grein sinni.

Stjórnendur stórtækir

Athyglisvert er að sjá hverjir eru gerendur í misferlismálum og hvernig umfang misferlismála skiptist niður á gerendur. Samkvæmt skýrslu ACFE eru um 42% gerenda almennir starfsmenn og í flestum tilvikum má segja að um almennt hnupl sé að ræða. Í 41% tilvika er um millistjórnendur að ræða og í 17% tilvika er það yfirstjórn eða eigendur sem gerast sekir um slíkt. Alger viðsnúningur verður á gerendum þegar litið er til umfangs misferlis. Samkvæmt skýrslunni kemur í ljós að því hærra sem menn eru settir, þeim mun stórtækari eru þeir. Eins og gefur að skilja eru tölurnar í skýrslu ACFE birtar í Bandaríkjadölum en í grein sinni miðar Jóhann við gengi dollars á 116 kr. Þá sést að umfang hvers misferlisatviks er um níu milljónir kr. þegar gerendur eru almennir starfsmenn, 20 milljónir kr. hjá millistjórnendum og 90 milljónir kr. hjá yfirstjórnendum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.