Acer
Acer
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)

Stjórnendur tæknirisans Acer á Taívan verða að sætta sig við 30% launaskerðingu vegna lélegrar afkomu fyrirtækisins á fjórða ársfjórðungi. Fyrirtækið tapaði sem svarar til 29 milljarða íslenskra króna. Þetta var jafnframt þriðji ársfjórðungurinn í röð sem fyrirtækið skilar tapi. Tekjur drógust saman um í kringum 10% á milli ára.

Tölvu- og tæknitímaritið PC World segir tapið skýrast einkum af afskriftum birgða og öðrum tengdum liðum. Þá segir tímaritið eina skýringuna þá að sala á tölvum hafi dregist saman eftir tilkomu snjallsíma og spjaldtölva. Það hafi komið harkalega niður á Acer en áhersla fyrirtækisins hefur fram til þessa verið á framleiðslu borð- og fartölva. Reynt hafi verið að blása í seglin með framleiðslu á þynnri fartölvum en áður sem keyri á stýrikerfinu Windows 8 frá Microsoft. Þær tilraunir hafa ekki gefist vel, að sögn PC World.