Sigríður Margrét Oddsdóttir forstjóri Já útskrifaðist með B.Sc. gráðu frá Háskólanum á Akureyri og hóf störf hjá ráðgjafafyrirtækinu Ráðgarði að námi loknu. Þar starfaði hún til ársins 2005 þegar Síminn stofnaði Já sem sjálfstætt fyrirtæki til að halda utan um útgáfu símaskrárinnar og rekstur 118 og var Sigríður fengin til að leiða það verkefni. Árið 2007 tók Sigríður einnig við rekstri Skjásins og varð hún þá fyrsta íslenska konan til að verða sjónvarpsstjóri. Árið 2011 keypti fagfjárfestasjóðurinn Auður 1 meirihluta í Já og Sigríður ákvað að halda áfram með fyrirtækinu. „Á þessum tíma voru það næstum bara konur sem komu að þeim samningi,“ segir Sigríður þegar hún minnist kaupanna. „Það voru ég og Katrín Olga Jóhannesdóttir, stjórnarformaður fyrirtækisins, stjórnarformaður og forstjóri fjármálafyrirtækisins sem hýsti sjóðinn og bankastjóri þess banka sem lánaði til kaupanna og meira að segja lögfræðingarnir við borðið þegar gengið var frá fjármögnuninni voru konur.“

Hafa kynin ólíkar áherslur í stjórnun og rekstri fyrirtækja?

„Ég er á því að kynin hafi ólíkar áherslur alveg eins og einstaklingar hafa ólíkar áherslur. Allar rannsóknir sýna og styðja að það er fjölbreytni sem skiptir máli. Það er hvort sem við erum að tala um kyn, aldur, reynslu, menntun og hvað annað. Það sem mér hefur þótt erfiðast að horfa upp á er þessi launamunur. Ég hef tekið þá ákvörðun varðandi launamuninn að mér finnst skipta máli að stjórnendur taki ábyrgð, séu meðvitaðir um þetta og taki ákvarðanir sem breyti þessu. Ég hef verið stjórnandi mjög lengi núna og hef séð með eigin augum að það er ólíkt hvernig karlar og konur koma að launaviðtölum. Það er því mikilvægt að stjórnendur séu meðvitaðir og taki ákvarðanir sem leiðrétti þennan kynbundna launamun sem sýnir sig aftur og aftur.“

Hvernig koma konur og karlar öðruvísi að launaviðtölum?

„Reynslan mín hefur einfaldlega verið sú að konur fara fram á minna en karlmenn, það er þó að breytast. Við erum alin upp, strákar og stelpur, með nákvæmlega sama hætti. Við förum í gegnum skólakerfið þar sem okkur eru gefnar einkunnir út frá okkar vinnu og hvernig við stöndum okkur í verkefnum. Við þurfum ekki að semja um einkunnirnar okkar. En það er eitthvað sem veldur því að karlmenn eru tilbúnari til að berja sjálfum sér á brjóst og hafa trú á því að þeir séu meira virði, sem speglast í þessum viðtölum. Þetta er þó bara mín persónulega reynsla og ég hef engar akademískar rannsóknir sem ég get vitnað til. Við gætum þess vegna kennt stelpum strax frá upphafi að semja. En þangað til að við breytum hugarfarinu þá þurfa stjórnendur að taka ábyrgð og ákvarðanir til að breyta þessu. Því til viðbótar er gott að hafa tæki og tól á borð við jafnlaunavottanir sem liðka til í ferlinu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .