Margir helstu forsvarsmenn TM, áður Tryggingamiðstöðvarinnar, tóku þátt í 3 milljarða króna hlutafjárútboði félagsins sem lauk í gær, en þeir keyptu fyrir samtals 323,5 milljónir króna á genginu 32,0.

Eins og sagt hefur verið frá í fréttum var hlutafjárútboðið til þess að klára fjármögnun á 9,3 milljarða króna kaupum félagsins á Lykli , sem er liður í áætlunum félagsins að sækja um Viðskiptabankaleyfi.

Þeir Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, Óskar B. Hauksson framkvæmdastjóri, Örvar Kærnested, stjórnarmaður, Kjartan Vilhjálmsson framkvæmdastjóri einstaklingsráðgjafar og markaðsmála, Gestur Óskar Magnússon, staðgengill regluvarðar, og Hjálmar A. Sigurþórsson framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar komu að kaupum á samtals rúmlega 10,1 milljón hluti.

Þar af var Örn Kærnested stórtækastur, í gegnum Stoðir hf., en hann er stjórnarmaður í báðum félögunum. Þannig kom hann að kaupum á 9.386.931 hlutum, á 300,4 milljónir króna, en eftir kaupin á félagið tæplega 77 milljón hluti í félaginu. Fyrir voru Stoðir stærsti eigandi TM með 9,97% hlut.

Miðað við kaupverðið eru verðmæti hluta Stoða tæplega 2,5 milljarðar króna, en miðað við markaðsgengi TM þegar þetta er skrifað, 35,65 krónur, nemur eignarhluturinn ríflega 2,7 milljörðum króna.

Aðrir keyptu minna, forstjórinn Sigurður Viðarsson keypti ríflega 470 þúsund hluti á 15 milljónir króna, og á hann eftir kaupin 3,9 milljón hluti, sem er að andvirði 138 milljóna króna. Aðrir keyptu minna.