Fleiri hafa nú trú á sjávarútvegi og færri á stóriðju en á síðasta ári. Þetta má sjá með samanburði á niðurstöðum stjórnendakönnunar nú og fyrir ári síðan.

41,6% telja sjávarútveginn verða helsta drifkraft íslensks efnahagslífs á næstu áratugum. Sambærilegt hlutfall á síðasta ári var 34,1%. Taka skal fram að könnun fór fram 26. mars-25. apríl síðastliðinn en frumvörp til laga um veiðigjöld og stjórn fiskveiða voru lögð fram 26. mars.

Tæpast þarf að fræða nokkurn um sögu sjávarútvegs í íslensku atvinnulífi. Eftir hrun bankakerfisins, og krónunnar sem þá fylgdi, hefur rekstrargrundvöllur í sjávarútvegi batnað. Sjávarútvegurinn hefur því að vissu leyti rutt sér aftur rúms sem forystuafl í atvinnulífinu eftir að hafa að vissu leyti fallið í skugga uppsveiflunnar á árunum fyrir hrun. Þó ber að athuga að fyrirtæki í sjávarútvegi eru mörg hver mjög skuldsett auk þess sem mikil óvissa er um framtíðarhorfur atvinnugreinarinnar í ljósi mögulegra breytinga á veiðigjaldi og fiskveiðistjórn í heild.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd ber sjávarútvegurinn höfuð og herðar yfir aðrar greinar í þessum málum. Í öðru sæti er ferðaiðnaður sem 25,4% telja verða helsta drifkraftinn. Fast á hæla ferðmanna fylgir stóriðjan sem 14,5% hafa slíka trú á. Fylgi stóriðju hefur þó minnkað um þriðjung en sambærileg tala á síðasta ári var 21,8%. Töluvert hefur verið lagt í ferðaiðnað á síðustu árum og þrátt fyrir skiljanlegar áhyggjur marga virðast eldgos og hamfarir ekki hafa sett strik í reikninginn.

Hvaða atvinnugrein telur þú líklegasta til að verða megin drifkraftur íslensks efnahagslífs á næstu áratugum?
Hvaða atvinnugrein telur þú líklegasta til að verða megin drifkraftur íslensks efnahagslífs á næstu áratugum?

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.