„Ég tel að þetta endurspegli efnahagsástandið í heiminum, stöðuna í augnablikinu," segir Svana Helen Björnsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, um niðurstöður stjórnendakönnunar MMR. Viðskiptablaðið mun á næstu vikum fjalla um niðurstöður könnunarinnar.

Meðal þess sem fram kemur í könnuninni er að meirihluti stjórnenda í íslenskum fyrirtækjum er mótfallinn aðild að Evrópusambandinu. Á sama tíma telja aðeins rúm 30% krónuna framtíðargjaldmiðil Íslands.

Svana segir niðurstöðurnar endurspegla viðhorf sinna félagsmanna. "En ég tel þetta ekki endanlegt viðhorf. Eftir sumarið, ef eitthvað gerðist og jafnvel kæmist á meiri kyrrð, þá gæti ýmislegt gerst sem breytti þessum viðhorfum,“ segir Svana Helen.

Á heimasíðu SI kemur fram að aðild Íslands að ESB og upptaka evru sem gjaldmiðils í stað krónu séu meðal helstu stefnumála Samtaka iðnaðarins. Svana telur andstöðuna í dag endurspegla ákveðið hik. "Menn vilja bíða átekta og eru ekki tilbúnir til að kjósa sig inn í sambandið núna."

Skoðun stjórnenda á krónunni sem framtíðargjaldmiðli.
Skoðun stjórnenda á krónunni sem framtíðargjaldmiðli.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.