Umrótið í kringum Tesla virðist engan endi ætla að taka. Hlutabréfaverð í Tesla féll um 9% eftir að upplýst var um að tveir af framkvæmdastjórum fyrirtækisins hyggjast hætta störfum að því er Bloomberg greinir frá.

Greint var frá uppsögnunum nokkrum klukkustundum eftir að Elon Musk, forstjóri og stofnandi Tesla, reykti maríúana í viðtali við grínistann Joe Rogan.

Yfirmaður bókhaldsdeildar Tesla, Dave Morton sagði starfi sínu lausu innan við mánuði eftir að hann hóf störf. Þá hyggst Gabrielle Toledano, yfirmaður mannauðsmála, hjá Tesla ekki snúa aftur til Tesla en hún hefur verið í leyfi frá störfum að undanförnu.

Morton gekk til liðs við Tesla daginn áður en Elon Musk setti á Twitter að hann hefði í huga að kaupa upp hlutabréf í Tesla til þess að taka félagið af markaði. Tíst Musk er nú til rannsóknar hjá eftirlitsaðilum vegna mögulegrar markaðsmisnotkunar. Auk þess undirbúa fjárfestar nú kæru gegn Musk.

Bloomberg hefur eftir Morton að athygli almennings og fjölmiðla á Tesla hafi reynst mun meiri en hann bjóst við og því hafi hann ákveðið að segja starfi sínu lausu.