*

fimmtudagur, 6. maí 2021
Innlent 4. júní 2016 13:10

Markaðsetur rafmagn

Dr. Friðrik Larsen er einn helsti sérfræðingur veraldar þegar kemur að vörumerkjastjórnun á orku.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Dr. Friðrik Larsen, lektor við Háskóla Íslands og fráfarandi stjórnarformaður ÍMARK, hefur undanfarið haslað sér völl á sviði vörumerkjastjórnunar í orkugeiranum (e. Energy Branding). Í kjölfar þess að hann skrifaði doktorsritgerð um markaðssetningu orku stofnaði hann fyrirtækið LarsEn Energy Branding, sem er það fyrsta sinnar tegundar og séræfir sig í að aðstoða orkufyrirtæki við að bæta ímynd sína.

Friðrik segir raforkugeirann standa ansi aftarlega þegar kemur að markaðssetningu, enda hefur markaður með rafmagn í gegnum tíðina verið einokunar eða fákeppnismarkaður og fyrirtækin hafa ekki þurft að hafa miklar áhyggjur af því að missa viðskiptavini, enda þurfa allir rafmagn. Nú eru hins vegar breyttir tímar og Friðrik reynir nú að fá heilan bransa til að horfast í augu við nýjan raunveruleika.

„Ég tala mikið á ráðstefnum um allan heim og þá er ég spurður að því hvað er „energy branding“ og síðan hvað er „branding“, svo lítil er þekking rafmagnsgeirans á þessu fyrirbrigði sem vörumerkjastjórnun er,“ segir Friðrik. Hann segir vörumerkjastjórnun snúast um upplifun fólks en ekki endilega vöruna sjálfa. „Það er búin til einhvers konar tenging við viðskiptavininn sem byggir ekki einungis á vörunni sjálfri heldur tilfinningum eða hugrenningum. Vinsælt er að taka dæmi með Coke og Pepsi þar sem fólk í blindum prufum þykir Pepsi oftar betra á bragðið. Fleiri kaupa hins vegar Coke og segja að það sé betra vegna þess að fólk spáir ekki einungis í bragðinu heldur er vörumerkið Coke talið sterkara. Skynjun verður að raunveruleika og tilfinningalegur þáttur verður sterkur þegar upp er staðið.

Við erum í raun að gera það sama með rafmagn, að hjálpa fyrirtækjunum að tengjast kúnnanum með viðurkenndum aðferðum vörumerkjastjórnunar. Það var ekki þörf á því fyrir tíu eða tuttugu árum síðan þegar einungis einn aðili mátti selja rafmagn, en núna er það t.d. þannig í Hollandi að þú getur keypt rafmagn frá yfir 30 smásölum. Það er alveg sama hverjum þú kaupir það af – þú munt fá sama rafmagnið – og þá er þetta ekki spurning um vöruna heldur ímynd þess sem selur þér. Mitt starf gengur út á að aðstoða fyrirtækin að byggja upp ímynd, en þetta er öðruvísi en að markaðssetja vöru eins og Coke, því fólk hefur ákveðnar fyrirfram mótaðar hugmyndir um það hvernig orkusalar eiga að haga sér. Tengingar er því ekki hægtað byggja upp á sama máta og til dæmis með sápu eða súkkulaði.“

Ítarlegt viðtal er við Dr. Friðrik Larsen í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á helkkinn Tölublöð.

Stikkorð: Friðrik Larsen