*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Innlent 20. mars 2020 15:01

Stjórnin boðar til blaðamannafundar

Ríkisstjórn Íslands boðar blaðamenn til fundar í Hörpu á morgun klukkan 13, en vilja að sitji tvo metra frá hvorum öðrum.

Ritstjórn
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson leiða ríkisstjórnarflokkana þrjá.
Haraldur Guðjónsson

Blaðamannafundur ríkisstjórnar Íslands verður í Hörpu á morgun, laugardaginn 21. mars, kl. 13:00, en beðið hefur verið eftir frekari viðbrögðum stjórnarinnar við efnahagslegum áhrifum útbreiðslu Covid 19 veirusýkingarinnar.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur Seðlabankinn nú í tvígang gripið til aðgerða á einni viku, en nú má segja að boltinn sé hjá ríkisstjórninni.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hafa boðað til blaðamannafundar í Norðurljósum í Hörpu á morgun, laugardaginn 21. mars kl. 13:00, og má álykta að það sé ástæðan séu viðbrögð við veirufaraldrinum.

Fundinum verður streymt á vefsíðu Stjórnarráðsins og hann verður táknmálstúlkaður, en jafnframt er vísað í fyrirmæli Landlæknisembættisins og almannavarna um að ef færri en 100 einstaklingar komi saman til funda eða ráðstefnu þurfi að tryggja að fjarlægð á milli einstaklinga sé a.m.k. tveir metrar.

Þannig verða tveir metrar á milli stóla í sal og er fjölmiðlafólki bent á að hafa tvo metra á milli sín og næstu manneskju, bæði á meðan á fundinum stendur og að honum loknum þegar viðtöl fara fram.