Blaðamannafundur ríkisstjórnar Íslands verður í Hörpu á morgun, laugardaginn 21. mars, kl. 13:00, en beðið hefur verið eftir frekari viðbrögðum stjórnarinnar við efnahagslegum áhrifum útbreiðslu Covid 19 veirusýkingarinnar.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur Seðlabankinn nú í tvígang gripið til aðgerða á einni viku, en nú má segja að boltinn sé hjá ríkisstjórninni.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hafa boðað til blaðamannafundar í Norðurljósum í Hörpu á morgun, laugardaginn 21. mars kl. 13:00, og má álykta að það sé ástæðan séu viðbrögð við veirufaraldrinum.

Fundinum verður streymt á vefsíðu Stjórnarráðsins og hann verður táknmálstúlkaður, en jafnframt er vísað í fyrirmæli Landlæknisembættisins og almannavarna um að ef færri en 100 einstaklingar komi saman til funda eða ráðstefnu þurfi að tryggja að fjarlægð á milli einstaklinga sé a.m.k. tveir metrar.

Þannig verða tveir metrar á milli stóla í sal og er fjölmiðlafólki bent á að hafa tvo metra á milli sín og næstu manneskju, bæði á meðan á fundinum stendur og að honum loknum þegar viðtöl fara fram.