Einkahlutafélagið Stjórnin ehf. hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta, en 2. október síðastliðinn birtist í Lögbirtingablaðinu innköllun vegna skiptanna. Skiptafundur hefur verið ákveðinn 17. desember 2013.

Félagið er í eigu Grétars Örvarssonar. Grétar þekkja flestir vegna þátttöku hans í Eurovision- söngvakeppninni með Sigríði Beinteinsdóttur, en þau voru einmitt saman í hljómsveitinni Stjórnin.

Félagið hefur ekki skilað ársreikningi til fyrirtækjaskrár í nokkur ár og síðasti birti ársreikningur Stjórnarinnar er fyrir árið 2007. Þar kemur fram að rekstrarafkoma félagsins var neikvæð um tæpa 1,7 milljónir króna, en var jákvæð um 981.000 krónur árið 2006. Félagið greiddi engan skatt árið 2007, en tapaði 1,5 milljónum króna.

Eignir stjórnarinnar í árslok 2007 námu 2,5 milljónum króna og voru það einkum kröfur á viðskiptamenn, en engir fastafjármunir voru í félaginu. Skuldir námu 1,3 milljónum króna og eigið fé því jákvætt um 1,2 milljónir. Fjárhagsleg staða Stjórnarinnar var því ágæt í árslok 2007, en hefur líklega versnað frá þeim tíma miðað við hvernig komið er fyrir félaginu núna.