Portúgalska ríkisstjórnin er líklega fallin. Aðeins 97 af 230 þingmönnum samþykktu niðurskurðartillögu forsætisráðherrans í kosningu nú í kvöld. Allir fimm stjórnarandstöðuflokkarnir voru á móti og því kusu aðeins þingmenn sósíalista með tillögunni.

Jose Socrates, forsætisráðherra Portúgals, sagði fyrir kosninguna að stjórn hans myndi segja af sér ef niðurskurðartillögurnar yrðu ekki samþykktar.  Því er búist við að Socrates tilkynni um afsögn sína innan skamms.

Frumvarpinu um niðurskurð hjá hinu opinbera var ætlað að tryggja að ekki þyrfti að koma til neyðaraðstoðar frá ESB líkt og Grikkland og Írland hafa þegið.

Niðurstaðan getur haft mikil áhrif á gengi evrunnar því líkurnar á því að Portúgal fari sömu leið og Írland og Grikkland jukust mjög við eftir atkvæðagreiðsluna í kvöld.