„Hlutverk stjórna er að sjá til þess að stjórnendur fyrirtækisins axli ábyrgð. Verkefni stjórna eiga því að snúast um að bæta gæði stjórnunar með því að spyrja gagnrýninna spurninga," segir í grein Þórönnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra hjá Auði Capital, í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

„Til þess að svo megi verða þarf stjórnin að vera skipuð aðilum sem hafa bæði getu og vilja til að kryfja málin til mergjar og knýja stjórnendur til ábyrgðar. Með öðrum orðum; stjórnarmenn þurfa að hafa hæfileika til að rækja störf sín, vera tilbúnir til að starfa af heilindum samkvæmt eigin skynsemi og sannfæringu (þ.e. ekki draga taum ákveðinna hagsmunaaðila) og endurspegla ólík viðhorf til þess að hægt sé að skoða málin frá sem flestum hliðum," segir Þóranna í greininni.

Hún segir að vandamál stjórna hafi að stærstum hluta snúist um samsetningu og verklag. Almennt megi segja að málefnalega gagnrýni hafi skort. Stjórnir hafi verið einsleitar og afleiðing þess sé gjarnan sú að umræður og gagnrýni verða takmörkuð.

Þóranna segir að ákveðinnar stöðnunar hafi gætt í verklagi stjórna því vaninn virtist vera sá að lítil umræða átti sér stað á stjórnarfundi og margar stórar ákvarðanir teknar utan stjórnarfunda.

„Í kjölfar kolsteypu fjölmargra fyrirtækja er tímabært að staldra við og hugleiða hvernig koma megi í veg fyrir að slíkt gerist aftur. Stór þáttur hlýtur að vera undir stjórnum fyrirtækja kominn. Því er mikilvægt að hugað sé að því að stjórnir séu rétt skipaðar svo þær geti veitt fyrirtækjum nægilegt aðhald og stuðning. Þannig aukast líkur á að árangur fyrirtækja verði uppbyggilegur og viðvarandi," segir Þóranna.