Stjórnir Sparisjóðs vélstjóra, SPV og Sparisjóðs Hafnarfjarðar, SPH, hafa samþykkt áætlun um samruna sjóðanna. Samkvæmt áætluninni verður hlutur stofnfjáreigenda í SPV 61% í hinum sameinaða sparisjóði en hlutur stofnfjáreigenda í SPH 39%.

Á fundum stjórna beggja sparisjóðanna þann 27. apríl sl. var samþykkt að heimila stjórnarformönnum þeirra að hefja formlegar viðræður um sameiningu.

Viðræður hófust strax í kjölfarið. Í framhaldi af þeim var samrunaáætlunin lögð fram og hún síðan samþykkt af stjórnum sparisjóðanna.

Öll gögn varðandi samrunaáætlunina hafa nú verið send hlutaðeigandi yfirvöldum til yfirferðar og samþykktar. Gangi áætlanir eftir standa vonir til þess að nýr, sameinaður sparisjóður hefji starfsemi seinna á árinu.