Capacent sendi frá sér í fyrradag spá þar sem þeir töldu, ólíkt öðrum markaðsaðilum að jafnmiklar líkur væru á stýrivaxtalækkun og óbreyttum stýrivöxtum.

Kom á daginn eins og fréttir dagsins hafa borið með sér að Seðlabankinn kom mörkuðum á óvart með 0,5 prósentustiga stýrivaxtalækkun.

Verðbólguskot breyst í verðbólguhjöðnun

Í spánni sem Snorri Jakobsson hjá fjármála- og hagfræðiráðgjöf Capacent sendi frá sér í fyrradag sagði hann að verðbólga hafi hjaðnað hratt á síðustu mánuðum og það verðbólguskot sem Seðlabankinn hefði spáð í á vel á annað ár hafi breyst í verðhjöðnunarskot.

Þannig hafi aðhald peningastefnunnar aukist mikið og raunvaxtamunur milli Íslands og viðskiptalandanna sé kominn vel yfir 4%.

Meðan raunvextir á 10 ára ríkisskuldabréfum í Evrópu séu neikvæðir um 1,15%, þurfi bankinn að horfa til þeirra skilaboða hann sendi frá sér til markaðarins, en þau séu ekki traustvekjandi ef hann telji að raunvaxtamunurinn þurfi að vera vel yfir 4% til að halda fjármagni í landinu.

Stjórnkænska að viðurkenna ofmat

„Raunvaxtamunurinn er nú eins og hann var mestur á dögum víns og rósa þegar fjármagn flæddi stjórnlaust til landsins,“ sagði Snorri í tölvupóstinum.

„Það er ákveðin stjórnkænska að viðurkenna aðeins ofmat eða vanmat á aðstæðum, frekar en að vera í einhverri afneitun,“ sagði Snorri í samtali við Viðskiptablaðið og kallaði ákvörðunina skynsamlega.

Hefði undirstrikað óöruggi

„Raunvaxtamunurinn hefur náttúrulega aldrei verið hærri milli Íslands og annarra landa, og þá fer maður að velta fyrir sér hvaða skilaboð Seðlabankinn hefði verið að senda frá sér hefði hann haldið stýrivöxtunum óbreyttum. Það hefði undirstrikað óöruggi og taugaveiklun, en þeir koma mun sterkar í raun og veru út úr því að lækka vextina. Ef þú hefur ekki trú á sjálfum þér, hver hefur trú á þér þá?“

Snorri segir að trúverðugleiki peningastefnunnar virðist aðeins hafa verið að aukast.

Allir fæddir vísitölutengdir

„Það er ekki jákvætt fyrir Seðlabankann að hafa svona gríðarlega mikinn raunvaxtamun, það grefur undan trúverðugleikanum. Eins og Seðlabankastjóri sagði sjálfur þá hefur trúverðugleiki peningastefnunnar aukist á síðustu árum og peningastefnan orðið skilvirkari, þannig að með þessu eru þeir að segja að við höfum meiri trú á sjálfum okkur,“ segir Snorri sem fagnar lægri vöxtum.

„Ég held í raun og veru fyrir land eins og Ísland, þar sem allir eru fæddir vísitölutengdir, með þessar miklu verðtryggðu skuldir, þá sé jákvætt að hafa verðbólguna svolítið lága, eins og þekkjum í viðskiptalöndum okkar. Það er ekkert að því að hafa verðbólguna um 1%, ég myndi frekar telja það jákvætt fyrir Ísland.“