Nýkjörið stjórnlagaþing Venesúela sem í sitja fulltrúar tilnefndir af stjórnvöldum, þar á meðal eiginkona og sonur Maduro forseta, kom í fyrsta sinn saman í gær.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um mun þingið geta sett til hliðar lýðræðislega kjörið þing landsins, þar sem stjórnarandstaðan er í meirihluta, frestað forsetakosningum og öðrum kosningum til frambúðar auk þess að geta breytt stjórnarskránni að vild.

Settu saksóknara sem hætti stuðningi af

Stuttu eftir að 545 manna stjórnlagaþingið kom saman fyrirskipaði hæstiréttur landsins sem fylltur er af handbendum stjórnvalda fyrir um að saksóknari landsins væri vikið úr störfum. Saksóknarinn Luisa Ortega er nú sökuð um að misbeita valdi sínu eftir að hafa hætt blindum stuðningi við stjórnarherrana en hún neitar að viðurkenna vald réttarins til þess að víkja sér úr starfi.

,,Ég mun ekki hlíta neinni ákvörðun frá þessum ólöglegu dómurum," sagði Ortega í síðustu viku. Áður en hún hætti stuðningi sínum var hún ein þeirra sem hjálpuðu sósíalísku byltingu stjórnarherrana að tryggja vald sitt á öllum stigum kerfisins, en hætti honum þegar boðað var til stjórnlagaþingsins.

Mættu í einkennisbúningum en kölluðu andstæðinga fasista

Mótmælendur reyndu að brjóta sér leið inn í þinghúsið þar sem stjórnlagaþingið kom saman en lögreglunni tókst að brjóta þá á bak aftur með táragasi. Stjórnarandstöðuflokkarnir verða að ákveða fyrir 12. ágúst næstkomandi hvort þeir muni taka þátt í kosningum til fylkisstjóra í landinu sem eiga að verða í desember.

Þegar stjórnlagaþingið kom saman mættu margir þeirra í svörtum skyrtum með rauð bindi og héldu á stórri mynd af fyrirrennara Maduro forseta, og upphafsmanni hinnar svokölluðu bólíverísku byltingu í landinu, Hugo Chaves. Fyrrum utanríkisráðherra, Decy Rodríguez var kjörinn forseti stjórnlagaþingsins en í ræðu sinni eftir kjörið lofaði hún hörðum aðgerðum til andstæðinga stjórnvalda.

,,Fyrir hina ofbeldishneigðu, fasistana, þá sem eru í efnahagslegu stríði við fólkið, og sálrænum hernaði gegn þeim, dagur réttlætisins er kominn," sagði hún. Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar umkringdu þinghúsið með fánum og í rauðum litum Sósíalistaflokksins og hrópuðu slagorðið ,,Maduro heldur völdum, Chavés setti hann þar, og þar mun hann vera til frambúðar."

Ætla að búa til stéttlaust þjóðfélag laust undan bandarískri heimsvaldastefnu

Maduro hefur sagt að stjórnlagaþingið muni leysa efnahagslegan og stjórnmálavanda landsins. Ýmsir þingfulltrúar kenndu heimsvaldastefnu Bandaríkjanna um ástandið meðan aðrir lofuðu að þing stjórnað af verkamannastétt Venesúela gæti búið til þjóð án stétta.

Landbúnaðarverkræðineminn Isamary Matute, sem kosinn var til stjórnlagaþingsins frá Cojedes fylki sagði að fyrsta verkefni þess væri að endurskoða hæstaréttinn, sem þó er undir stjórn fylgismanna Maduro, til að tryggja enn harðari aðgerðir gegn andstæðingum stjórnvalda, sem hún kallaði hryðjuverkamenn.

,,Við munum verja þessa byltingu gegn öllum ógnum, það er markmið okkar," sagði hún að því er fram kemur í frétt WSJ .