Guðlaugur Þór Þórðarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist halda að almenningur sé orðinn leiður því hvernig andrúmsloftið hefur orðið á Alþingi.

„Það eru margir hlutir sem flokkarnir á Alþingi, stjórn og stjórnarandstaða, er ósammála um, en það er orðið ansi slæmt þegar við getum ekki einu sinni komið okkur saman um leikreglurnar sem segja til um það hvernig við leysum úr okkar ágreiningi og komumst að niðurstöðu. Hér er ég meðal annars að vísa í hótanir stjórnarandstöðunnar um að nota málþóf til að koma í veg fyrir að nokkurt mál komist í gegnum þingið. Það á ekki að vera flókið fyrir þingmenn að ræða málin af yfirvegun, komast að því hvað þeir eru sammála um og nota svo leikreglur þingsins til að leysa úr þeim málum þar sem ágreiningur er. Til þess erum við kjörin og það er okkar hlutverk. Ég held að margir kjósendur hafi takmarkaða þolinmæði fyrir því að sjá fólk karpa endalaust um form umræðunnar en ekki efnisleg atriði.“

Guðlaugur Þór segir að þegar fólk getur ekki unnið með yfirveguðum hætti úr málum sé stutt í stjórnleysi. „Stjórnleysi er mjög hættulegt og sagan sýnir okkur að ef stjórnleysi nær að hreiðra um sig í samfélagi þá er stutt í að afar óæskileg öfl nái að skjóta rótum og jafnvel ná völdum. Ég er alls ekki að spá því að það gerist hér, en það er ábyrgðarhluti að sitja á þingi og þingmenn verða að vera meðvitaðir um hugsanlegar afleiðingar gjörða sinna. Ég er alls ekki að segja að allir þingmennirnir 63 eigi að vera sammála. Alls ekki. Það er mikilvægt að við séum ósammála, en við þurfum að geta unnið úr málum á siðaðan hátt.“+

Ítarlegt viðtal við Guðlaug Þór er að finna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .