„Ég tel ámælisvert að flokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi skuli ekki virða þau tímamörk sem þingi hefur sjálft sett þeim með lögum,“ segir Sveinn Arason ríkisendurskoðandi.

Ríkisendurskoðun skilaði í dag skýrslu sinni fyrir starfsemina í fyrra og ritar Sveinn þar formála.

Í skýrslunni er m.a. fjallað um það lögbundna verkefni Ríkisendurskoðunar að hafa eftlirlit með fjármálum stjórnmálasamtaka og frambjóðenda. Þeim ber öllum að skylda til að skila fjárhagsupplýsingum til stofnunarinnar innan settra tímafresta.

Frestur stjórnmálasamtaka til að skila ársreikningum er lögbundinn og miðast við 1. október ár hvert. Ríkisendurskoðun setur tímafresti þegar um er að ræða upplýsingar um kostnað frambjóðenda af kosningabaráttu.

Framsóknarflokkurinn skussi fjórflokkanna

Stjórnmálaflokkarnir hafa aldrei skilað uppgjörum sínum til stofnunarinnar innan settra tímafresta, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins. Hreyfingin var fyrst flokkanna til að skila uppgjöri sínu fyrir árið 2010. Það gerði flokkurinn í maí í fyrra. Borgarahreyfingin skilaði uppgjöri sínu 29. ágúst og Vinstri grænir 23. september síðastliðinn. VG var jafnframt einn fjórflokkanna sem skilaði uppgjöri sínu innan tímamarka. Samtök fullveldissinna, Samfylkingin og Besti flokkurinn skiluðu uppgjörum sínum fyrir árið 2010 í október í fyrra en Sjálfstæðisflokkurinn seint í nóvember.

Framsóknarflokkurinn var mesti trassinn í hópi fjórflokkanna en hann skilaði uppgjöri sínu 17. janúar síðastliðinn, sjö mánuðum eftir að lokafrestur rann út. Uppgjörið skilaði sér í hús eftir að Ríkisendurskoðun beindi því til Fjársýslu ríkisins að flokkurinn fái ekki framlag hins opinbera fyrr en uppgjörið kæmi.

Af öllum flokkum rak Íslandshreyfingin lestina en hann skilaði uppgjöri sínu 7. febrúar síðastliðinn.