Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands (HÍ) og Baldur Þórhallsson, prófessor hafa hlotið viðurkenningu ERASMUS fyrir framlag til kennslu og rannsókna á samrunaþróun Evrópusambandsins.

Viðurkenningin felst annars vegar í rausnarlegu fjárframlagi, um 7.5 milljónum króna, en hins vegar því að Baldur hlýtur titilinn Jean Monnet prófessor.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá HÍ en ERASMUS veitir árlega nokkrum afkastamiklum fræðimönnum á sviði Evrópufræða þennan styrk.

Í tilkynningunni kemur fram að styrknum verður varið til að efla kennslu í Evrópufræðum bæði í BA og MA námi í alþjóðasamskiptum við stjórnmálafræðideild HÍ., en þar hefur á liðnum árum aukist mjög kennsla, rannsóknir og útgáfa á þessu sviði.

Námskeiðum um Evrópusamrunann mun fjölga og sérstök áhersla lögð á að rannsaka og fjalla um stöðu smáríkja í Evrópu. Af þessu tilefni meðal annars, mun hefjast í haust nýtt diplómanám á meistarastigi um stöðu smáríkja í alþjóðakerfinu, en í tilkynningunni kemur fram að staða þeirra innan ESB er stór þáttur í því námi.

Styrkurinn gerir stjórnmálafræðideild einnig kleift að fjölga meistara- og doktorsnemum á sviði Evrópufræða.

Þá kemur fram að Baldur hefur kennt námskeið um smáríki í Evrópu og Evrópusamrunann við stjórnmálafræðideild HÍ allt frá því að hann hóf þar fyrst kennslu árið 1995.

Baldur hefur um árabil rannsakað samrunaþróun Evrópu og skrifað fjölda fræðigreina og tvær bækur á þessu sviði. Hann hefur einkum rannsakað hvernig smáríki álfunnar hafa brugðist við samrunaþróuninni og stöðu þeirra innan Evrópusambandsins.

Baldur lauk doktorspróf frá háskólanum í Essex í Englandi árið 1999 og varð prófessor við stjórnmálafræðideild HÍ árið 2006.