Í tilkynningu frá Festu segir að leiðtogar stjórnmálaflokkanna telja að íslensk fyrirtæki gegni lykilhlutverki og beri ríka ábyrgð gagnvart samfélaginu, samkvæmt könnun sem Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja - framkvæmdi.

Stjórnmálaleiðtogarnir telja jafnframt að íslensk fyrirtæki hafi jákvæð áhrif á samfélagið. Leiðtogar Bjartrar Framtíðar, Framsóknarflokksins, Viðreisnar, Vinstri Grænna, Samfylkingarinnar og Pírata svöruðu könnuninni en starfsmaður Valhallar svaraði fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Miðflokkurinn svaraði því að ekki væri búið að móta stefnu þegar kemur að samfélagsábyrgð. Ekki bárust svör frá Flokki fólksins.

75% leiðtoganna telja fyrirtæki hafa mjög góð áhrif á samfélagið en 25% telja fyrirtæki hafa frekar góð áhrif á samfélagið. Einungis rúmur helmingur Íslendinga eru á sama máli en 51,9% telja fyrirtæki hafa mjög eða frekar jákvæð áhrif á samfélagið. Það gefur til kynna að almenningur hér á landi beri töluvert minna traust til fyrirtækja á Íslandi en í nágrannalöndum á borð við Danmörku og Írland.

Samfélagsábyrgð felst í því að fyrirtæki axli ábyrgð á áhrifum sínum á samfélagið og umhverfið og snertir velflesta þætti í starfsemi fyrirtækja. Viðskiptasiðferði, umhverfismál, vinnuvernd, jafnrétti og aðgerðir gegn spillingu eru lykilhugtök þegar kemur að samfélagsábyrgð.

Hægt er að lesa svör stjórnmálaflokkanna á vef Festu.