Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, kom hingað til lands fyrir stuttu þar sem hann var meðal ræðumanna á ársfundi Samtaka atvinnulífsins sem fram fór í Hörpu. Þar fjallaði hann meðal annars um leiðir fyrir Ísland til þess að auka samkeppnishæfni sína og reynslu Svía af sambærilegum viðfangsefnum og Íslendingar þurfi nú að eiga við.

Aðspurður hve langt hann telji fyrirtæki geta gengið í launahækkunum með tilliti til verðbólgu segir Persson að stjórnmálamenn eigi ekki að segja aðilum vinnumarkaðarins fyrir verkum.

„Þegar stjórnvöld fara að gefa fyrirmæli um hámarks- eða lágmarkslaunahækkanir erum við komin með inngrip í frjálsar samningaviðræður tveggja aðila. Það mun eyðileggja kerfið. Sem stjórnmálamaður sagði ég alltaf: Þetta er ykkar ábyrgð. Þið verðið að komast að niðurstöðu sem er skynsamleg fyrir bæði launþega og fyrirtæki. Ef þið gerið mistök á þessu sviði mun atvinnuleysi aukast, landið mun missa viðskipti og samkeppnishæfni þess minnka,“ segir Persson.

Hins vegar segir hann freistandi fyrir stjórnmálamenn að skipta sér af. „Það er hins vegar hvorki þeirra ábyrgð né verkefni. Fari aftur á móti ákveðnir jaðarhópar að misnota aðstæður hefur samfélagið rétt til þess að verja sig gegn því í gegnum löggjöf. Við þurftum aldrei að gera það í Svíþjóð. Það er algjört lokaúrræði.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .