Rakel Sölvadóttir, stofnandi Skema, segir að það skorti áhuga og hvata á uppbyggingu sprotafyrirtækja meðal stjórnmálamanna. „Til dæmis væri eitt skref að skoða tekjutrygginguna og koma til móts við sprotafyrirtæki hvað starfsmannamál varðar. Efling en ekki niðurskurður á Tækniþróunarsjóði er nauðsynleg en þar er flottur grunnur sem hefur skipt sköpum fyrir okkar félag og annarra. Skattaívilnunarverkefnið hefur einnig verið að nýtast mörgum vel þannig að það er eitthvað hlúð að fyrstu skrefunum en hvað svo? Annars hef ég ótrúlega mikla trú á Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og er hún er ein af fáum stjórnmálamönnum í dag sem hafa bein í nefinu til þess að taka einhver skref í átt að alvöru framþróun landsins. Ég hef fulla trú á því að hún muni hafa áhrif á þetta. Við getum allavega ekki verið að eyða meira púðri og fjármunum í kvótaerfingja sem þurfa afnám veiðileyfagjalda til að greiða út hærri arðgreiðslur. Ég hef sem sagt að mestu orðið fyrir miklum vonbrigðum með nýju ríkisstjórnina. Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson virðast vera með vafasama stefnu og það lítur út fyrir að þeir séu að reyna að læsa landinu eins vel og þeir geta.“

Fjárfestaleit hafin
Fyrstu skref frumkvöðla hér á landi hafa samt tekið framförum að sögn Rakelar en það er ekki ríkisstjórninni að þakka samt sem áður. Keppnir eins og Fræið og Gulleggið hjálpa litlum fyrirtækjum auk þess sem stuðningur innan frumkvöðlasetra hefur aukist. Síðan er framhaldið erfiðara, segir Rakel. „Mörg fyrirtæki taka inn íslenska fjárfestingarsjóði. Án þess að alhæfa þá hef ég heyrt fleiri slæmar sögur en góðar af slíkum fjárfestingum. Ég er ekki til í að fara þá leið og fá aðila í stjórn sem hafa ekki nægilega mikinn skilning á alþjóðavæðingu og sprotaumhverfinu. Sjóðirnir láta líka oft lítinn pening í fyrirtækin en fara fram á stóra prósentu. Þá er búið að læsa framhaldinu. Erlendir aðilar eru ekki skotnir í því að koma inn í félög þar sem eru fyrir íslenskir fjárfestingarsjóðir. Þá eru þeir bundnir inn í íslenskt lagaumhverfi og of margar kvaðir sem fylgja. Það eru fjárfestingartækifæri í boði út um allan heim og því vilja erlendir fjárfestingarsjóðir ekki auka flækjuna, almennt séð þykir þeim það ekki spennandi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.