Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði á Alþingi í gær að með frumvarpi ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir í ríkisfjármálum og þeim aðhaldsaðgerðum sem frekar yrðu kynntar á næstu dögum væru stjórnvöld að leggja sitt af mörkum til þess að Seðlabankinn gæti lækkað stýrivexti.

Steingrímur mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi í gær en þar er m.a. kveðið á um skattabreytingar og ýmsar aðgerðir til að brúa fjárlagahallann. Fyrstu umræðu lauk síðla dags og var frumvarpinu í kjölfarið vísað til nefndar.

Stjórnmálamenn verði að vera orðvarir

Undir lok umræðunnar spurði Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, Steingrím að því hvaða væntingar hann hefði til stýrivaxtalækkunar Seðlabankans í byrjun júlí.

Steingrímur svaraði því til að það væri búið að kenna sér það - sem hann hefði kannski ekki kunnað nógu vel í vetur - að stjórnmálamenn, sérstaklega þeir sem stýrðu ráðuneytum á sviði efnahags- og ríkisfjármála, þyrftu að vera ákaflega orðvarir í þessum efnum.

Það væri Seðlabankans að taka ákvarðanir um stýrivexti og bankinn væri algjörlega sjálfstæður í sínum ákvörðunum.

Steingrímur bætti því hins vegar við, sem fyrr sagði, að með frumvarpinu og þeim aðgerðum sem kynntar yrðu frekar á næstu dögum væru stjórnvöld með trúverðugum hætti að leggja sitt af mörkum til þess að Seðlabankinn þyrfti ekki að vera í einhverri óvissu um þessi mál og gæti ekki lækkað stýrivexti.