Ríkisendurskoðun áformar að ljúka stjórnsýsluúttekt á starfsemi Þróunarfélagsins á Keflavíkurflugvelli um miðjan febrúar, að því er fram kemur í gögnum fjárlaganefndar Alþingis. Í stjórnsýsluúttektina var farið eftir að gerðar höfðu verið athugasemdir við sölu Þróunarfélagsins á fyrrum eignum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.

Í bréfi fjármálaráðuneytisins til fjárlaganefndar segir að söluverð eigna hafi numið 12 milljörðum króna á árinu 2007. Innborganir söluandvirðis á árinu hafi numið 132 milljónum króna. "Við afgreiðslu fjáraukalaga 2007 var hins vegar gert ráð fyrir að innborganir á árinu næmu 3.500 m.kr. Skýringu á þessu fráviki má rekja til þess að á árinu 2007 náðist ekki að ljúka gerð kaupsamninga við tvo af þeim aðilum sem höfðu skilað inn kauptilboði," segir í bréfinu.

Þar segir einnig að söluverð eigna á þessu ári geti numið 4 milljörðum og innborganir um 1,5 milljarði.