Íslenska ríkið var í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun sýknað af 118 milljón króna, auk vaxta frá í október 2018, kröfu Stjörnugríss hf. Félagið hafði farið fram á að svokallað yfirmatsgjald og eftirlitsgjald til Matvælastofnunar (MAST) þar sem það taldi að fyrirkomulag álagningar þess bryti í bága við stjórnarskrá.

Ekki er laust við að áhugafólk um lögfræði iði örlítið í skinninu í hvert sinn sem Stjörnugrís stefnir íslenska ríkinu enda hafa dómar í málum félagsins reglulega ratað í kennslubækur í hinum ýmsu fögum. Nægir í því samhengi að nefna tvo dóma Hæstaréttar frá því upp úr aldamótum og nýlegan dóm er varðaði endurgreiðslu búnaðargjalds og félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Dómurinn nú féll félaginu hins vegar ekki í vil og má kalla það tíðindi með vísan til framangreinds.

Samkvæmt lögum um slátrun og sláturafurðir skal fara fram skoðun á öllum sláturdýrum áður en þau eru aflífuð. Það eftirlit er í höndum eftirlitsdýralækna MAST en samkvæmt lögum skal kostnaður við eftirlitið greiðast af þeim aðila sem sér um slátrun. Í þessu tilfelli er það Stjörnugrís. Gjaldið á síðan að taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna. Á tímabilinu október 2014 til október 2018 greiddi félagið um 109 milljónir króna í slíkt gjald. Afgangur stefnufjárhæðarinnar er til kominn vegna svokallaðs yfirmatsgjalds en grunnur málanna tveggja er áþekkur.

Gjaldið byggði á meðaltalskostnaði

Umrætt eftirlitsgjald er samkvæmt gjaldskrá 6,5 krónur fyrir hvert slátrað kíló af svínakjöti. Gjaldskráin hefur ekki tekið breytingum frá árinu 2012. Að mati Stjörnugríss er þar á ferð dæmigert þjónustugjald en slík gjöld mega ekki vera hærri en kostnaður við að veita þá þjónustu sem fæst í staðinn. Taldi félagið að þarna væri í raun skattlagning á ferð sem bryti í bága við stjórnarskrárákvæði um að skatta mætti einungis ákveða með settum lögum.

Svínasláturhús Stjörnugríss er það stærsta hér á landi og eina sláturhúsið sem aðeins sér eingöngu um slátrun svína. Taldi félagið að kostnaður við eftirlitið hlyti að vera umtalsvert minni hjá stærri sláturhúsum en hjá þeim sem minni eru. Slíkt myndi leiða af sjónarmiðum um stærðarhagkvæmni. Taldi félagið að fyrirkomulag gjaldsins, sem fól í sér eiginlegan „meðaltalskostnað“, gengi ekki upp enda væri slíkur kostnaður í eðli sínu ólíkur raunkostnaði.

„Fyrirkomulag innheimtu á eftirlitsgjaldinu ber öll merki skattlagningar fremur en innheimtu þjónustugjalds. Skortir enda algjörlega á að bein tengsl séu á milli þeirrar skyldu að greiða gjöldin og fjárhæðar þeirra og þeirrar þjónustu sem veitt er. Í stað þess að gjaldendur séu látnir njóta stærðarhagkvæmni og staðsetningar starfsstöðva er féð nýtt til niðurgreiðslu á kostnaði annarra gjaldenda þar sem raunkostnaður er lægri,“ segir meðal annars í málsástæðukafla félagsins.

Íslenska ríkið taldi aftur á móti að gjaldið væri fullkomlega í samræmi við það sem ráð er gert fyrir. Þá taldi ríkið að Stjörnugrís hefði í raun greitt minna til MAST en svaraði til kostnaðar af eftirlitinu. Var á það bent að stöðugildi dýralækna sem sinntu því væru tvö, þau höfðu verið 1,6 fram til nóvember 2017, og að laun þeirra á tímabilinu hafi numið tæplega 71 milljón króna. Við það bætist kostnaður vegna aksturs, tæpar átta milljónir króna, og ýmis búnaður og kostnaður við sýnatökur. Allt í allt hefði kostnaður MAST vegna eftirlitsins í þessu tiltekna sláturhúsi verið ríflega 140 milljónir króna. Væru launatengd gjöld dregin frá væri kostnaður umfram innheimt eftirlitsgjald rúmar 14 milljónir.

„Aðili sem greiðir þjónustugjöld geti að öllu jöfnu ekki krafist þess að sá kostnaður sem hljótist af því að veita honum þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út og verði þeir sem fái veitta þjónustu þannig að sæta því að greiða þjónustugjöld sem nemi þeirri fjárhæð sem almennt kosti að veita umrædda þjónustu. [...] Eðlilegt sé því að líta til kostnaðar á kíló af kjöti sem falli til við slátrun, enda sé kostnaður við framkvæmd eftirlitsins í eðli sínu nokkuð sambærilegur á hvert og eitt svín,“ segir í málsástæðukafla ríkisins.

Meðaltalskostnaðurinn hafi ekki reynst hærri en útreiknaður kostnaður

Í niðurstöðu héraðsdóms er fallist á með ríkinu að túlkun Stjörnugríss á hugtakinu „raunkostnaður“ sé of þröng og að heimilt sé að líta til kostnaðar sem almennt hlýst af við að veita umrædda þjónustu.

„[V]ið mat á réttmæti kröfu [Stjörnugríss] verður að horfa til þess að [ríkið] hefur nú lagt fram ítarleg gögn um útreikning raunkostnaðar sjá [félaginu] sérstaklega [...] Hefur [Stjörnugrís] að mati dómsins ekki getað hrakið þessa útreikninga [ríkisins], né heldur að umræddir kostnaðarliðir eigi hér ekki við m.t.t. framangreindra laga og reglna sem um eftirlitið gilda. Staðfesta þau einnig að þjónustugjaldið sem lagt var á [félagið], byggt á meðaltalskostnaði, sé í öllu falli ekki hærra en framangreindur útreiknaður kostnaður við eftirlit á tímabilinu,“ segir í niðurstöðu dómsins. Var ríkið sýknað af þeim sökum.

Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður Stjörnugríss, segir að ákvörðun um það hvort dóminum skuli áfrýjað til Landsréttar hafi ekki verið tekin. Af fyrsta lestri dómsins telji hann þó líklegra en ekki að málinu verið skotið til æðri dóms. Eva Halldórsdóttir flutti málið í héraði fyrir hans hönd.