Bókin Capital in the 21 Century eftir franska hagfræðinginn Thomas Piketty hefur notið gríðarlegra vinsælda um þessar mundir en ensk þýðing hennar skaust t.a.m. beint upp á metsölulista Amazon þegar hún kom út í mars síðastliðnum. Bókin byggir á umfangsmiklum rannsóknum Piketty um aukna samþjöppun auðs en niðurstaða hennar er sú að samþjöppunin hafi aukist gífurlega á síðustu árum og leggur hann til alþjóðlegan eignaskatt til að koma böndum á hana.

Samkvæmt nýrri grein Financial Times er hins vegar gefið í skyn að bókin öll sé morandi í staðreyndavillum og lélegri meðhöndlun gagna. Þar er hann m.a. sakaður um að breyta niðurstöðum gagnasafna sem hann vísar til, að búa til eigin gagnasöfn sem hvergi fá tilvísun og að handvelja gögn sem styðja betur við niðurstöðu hans en önnur.

Í svari sem Piketty sendir Financial Times segir hann að hann hafi þurft að styðjast við mjög stór og misleit gagnasöfn sem hann hafi þurft endrum og eins að stílfæra. „Ég er alveg viss um að hægt væri að finna betri gögn í framtíðinni en það kæmi mér verulega á óvart ef það fengi niðurstöðum mínum um langtímaþróun dreifingar auðs eitthvað breytt,“ segir Piketty.