Citigroup, hefur sett einn háttsettasta skuldabréfamiðlara sinn í leyfi vegna gruns um að stela mat úr mötuneyti höfuðstöðva fyrirtækisins í Canary Wharf í London. FT greinir frá málinu.

Miðlarinnar, Paras Shah, er 31 árs og hefur vakið athygli fyrir störf sín, en hann sérhæfir sig í viðskiptum með ruslbréf (e. junk bonds) í Evrópu. Árslaun hans eru talið hafa numið yfir milljón pundum á ári, um 160 milljónum króna. Shah er sendur í leyfi nokkrum vikum áður en til stóð að greiða út bónusa hjá Citigroup. FT hefur eftir fyrrverandi samstarfsmönnum hans að hann hafi verið vel liðinn og farsæll í starfi.

Önnur dæmi eru um að hart sé tekið á þjófnaði í fjármálageiranum á Bretlandi, þó stolið sé fyrir lágar fjárhæðir. Mizuho Bank rak starfsmann fyrir að stela varahlut úr hjóli sem metinn var á fimm pund eða um 800 krónur árið 2016.

Þá bannaði breska fjármálaeftirlitið yfirmann hjá BlackRock árið 2015 eftir að upp komst að hann hafi ítrekað sleppt því að greiða fyrir lestaferðir sínar til og frá vinnu. Starfsmaðurinn endaði á að greiða 43 þúsund pund, um 7 milljónir króna vegna málsins.