Það er enginn skortur á einföldum útskýringum á þeirri fjármálakreppu sem braust út af fullum þunga árið 2008. Þær vísa flestar til gráðugra bankamanna sem lánuðu fé án ábyrgðar og seldu sín á milli óskiljanlega og heimskulegra fjármálagerninga sem höfðu fengið gæðastimpil frá glórulausum sérfræðingum matsfyrirtækja.

Fífl véluðu með fíflafé og úr varð skelfing, svo vitnað sé til sígildra orða Walter Bagehot.

Eitthvert sannleikskorn kann að leynast í þessum útskýringum en samt er það svo að sökudólgarnir leynast víðar en margur heldur. Nýlega gaf breska hugveitan Institute for Economic Affairs út bókina Verdict on the Crash og eins og titillinn gefur til kynna þá fjallar hún um aðdraganda hrunsins.

Um er að ræða safn ritgerða eftir nafntogaðar hagfræðisleggjur á borð við Eamonn Butler, John Kay, Önnu Schwartz, Philip Booth og Kevin Dowd, svo einhverjir séu nefndir. Rauði þráðurinn er að fjármálahrunið árið 2008 orsakaðist ekki af markaðsbresti. Það voru stjórnvaldsaðgerðir og rangar ákvarðanir við stjórn peningamála beggja vegna Atlantsála sem skópu aðstæðurnar sem leiddu til hrunsins.

Það átti sér stað þrátt fyrir að stjórnvöld hafi umsvifamikið eftirlit með fjármálamörkuðum – fátt var gert til þess að draga úr óhóflegum vexti áhættusækni í fjármálakerfum heims. Þar af leiðandi eru höfundar skýrslunnar sammála um að enn frekara eftirlit muni ekki draga úr hættunni á kerfislægu hruni á borð við það sem átti sér í stað í fyrra.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í ítarlegri erlendri fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .