Á árinu hefur stjórn Fjármálaeftirlitsins (FME) lagt stjórnvaldssektir á sjö aðila vegna brota, sem áttu sér stað í fyrra, á lögum um verðbréfaviðskipti og lögum um verðbréfa- og fjárfestingarsjóði. Nema sektarfjárhæðirnar alls tæpum 22 milljónum króna en námu 41 milljarði í fyrra. Hæstu sektina fékk Teymi sem var sektað um 7,5 milljónir króna í byrjun febrúar fyrir að greina ekki tafarlaust frá innherjaupplýsingum sem mynduðust hjá félaginu þegar niðurstöður virðisrýrnunarprófs lágu fyrir í mars 2009.

Í byrjun mánaðarins lagði FME fimm milljóna króna sekt á Marel Food Systems fyrir að greina ekki frá innherjaupplýsingum sem mynduðust þann 23. september á síðasta ári þegar stjórn félagsins tók ákvörðun um útgáfu nýrra hluta og sölu eigin bréfa til Columbia Wanger Asset Management. Columbia greindi frá því tveimur dögum síðar að það hefði eignast ríflega 5% hlut í Marel. Forsvarsmenn Marels hafa lýst yfir furðu sinni á afstöðu FME en þrátt fyrir ágreining um túlkun laga um verðbréfaviðskipti hyggst félagið ekkert aðhafast frekar.

Íslandssjóðir og Opin kerfi Group voru hvort um sig sektuð um þrjár milljónir króna fyrr á árinu, sveitarfélagið Langanesbyggð um 1,3 milljónir króna, Thule Investments ehf. um eina milljón króna og Reykjanesbær um 800 þúsund krónur. Athygli vekur að bæði sveitarfélögin höfnuðu sáttarboði fyrir helmingi lægri fjárhæð.

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .