Íslensk stjórnvöld hafa bannað skipum útgerðarinnar Brims að veiða makríl innan lögsögu Grænlands í samstarfi við Grænlendinga þrátt fyrir að fyrirtækið hafi leyfi til þess hjá grænlenskum yfirvöldum til veiða á makríl, síl og kolmunna innan lögsögu Grænlands í samstarfi við heimamenn.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, segir í samtali við Útvegsblaðið sem kom út í dag rökin ekki standast. Nú þegar veiðar Brim hafi verið stöðvaðar muni skip frá Kína fara á makrílveiðar við Grænland.

„Þarna er okkur beinlínis bannað að skapa okkur verkefni og þjóðinni gjaldeyri,“ segir Guðmundur. „Ég hefði talið það skynsamlegt að við Íslendingar myndum leggja töluvert á okkur til að vinna með Grænlendingum.“

Guðmundur heldur áfram:

„Núverandi stjórnvöld hafa verið endalaust að koma með algjörlega óraunhæfar tillögur um nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi. En núna á síðustu árum undir forystu þeirra hefur aldrei verið veitt jafnmikið af fiski í bræðslu eins og núna. Árið 2009 eru leyfðar veiðar á makríl í bræðslu algjörlega stjórnlaust. Engin önnur þjóð hefur leyft þetta. Í samningaviðræðunum um makrílinn nú eigum við bara að segja það alveg skýrt, að við vitum ekki hve mikill makríll er í lögsögunni og hve lengi hann er hér eins og staðan er í dag. Við verðum rannsaka þetta betur.“

Viðtalið má lesa í heild sinni í Útvegsblaðinu .