*

föstudagur, 4. desember 2020
Frjáls verslun 25. desember 2019 18:36

Stjórnvöld byrji á réttum enda

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir að nú sé tími til að horfa fram á veginn og velta fyrir sér hvernig auka megi samkeppnishæfni Íslands.

Ástgeir Ólafsson
Eyþór Árnason

Sigurður Hannesson hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins (SI) frá árinu 2017 en hafði áður starfað í fjármálageiranum, síðast sem framkvæmdastjóri eignastýringar Kviku banka. Þá var hann einnig varaformaður framkvæmdahóps um losun fjármagnshafta auk þess sem hann var formaður sérfræðingahóps um Leiðréttinguna.

Óhætt er að segja að hægt hafi á hagkerfinu á þessu ári eftir vöxt síðustu ára þó að hagvaxtarspám beri ekki saman um hvort lítill hagvöxtur eða samdráttur verði á árinu. Spurður hvernig staðan í efnahagsmálum blasi við segir Sigurður að búast megi við því að komandi vetur muni reyna nokkuð á og að fyrirtæki muni halda áfram að mæta þróuninni með hagræðingaraðgerðum. „Við höfum bent á það frá hausti 2018 að hagkerfið væri að sigla inn í samdrátt eftir mikið vaxtarskeið. Á það var einnig bent að við mættum ekki ganga á þann efnahagslega höfuðstól sem byggðist upp á undanförnum árum, ekki síst með vel heppnaðri losun fjármagnshafta.

Það hefur svo sannarlega komið á daginn að hagkerfið hefur kólnað. Veturinn mun reyna á og samdrátturinn mun vara eitthvað fram á nýtt ár en hagkerfið mun svo vonandi taka við sér á seinni helmingi næsta árs. Samhliða þessu má alveg búast við því að fyrirtæki muni halda áfram að hagræða í rekstri. Við höfum nú þegar séð uppsagnir í stórum stíl á þessu ári þannig það má alveg búast við áframhaldi á því og frekari hagræðingaraðgerðum hjá fyrirtækjum til að draga úr kostnaði.

Það er mikið umhugsunarefni að opinberum starfsmönnum fjölgi á sama tíma og fyrirtæki landsins leita allra leiða til að hagræða í rekstri við krefjandi aðstæður. Verkefnið framundan er að auka verðmætasköpun enn frekar til að standa undir frekari aukningu lífskjara. Það má að sumu leyti segja að ef Ísland væri heimili væri eignastaðan góð en innkoman þyrfti að vera meiri. Lykilspurningin er sú á hverju hagvöxtur framtíðar eigi að byggja. 

Hagvöxtur framtíðarinnar er ekki greyptur í stein heldur ræðst hann m.a. af ákvörðunum sem teknar eru í dag. Við getum gert ýmislegt til að bæta samkeppnishæfni innlendra fyrirtækja og þar með aukið verðmætasköpun þeirra og lífsgæði íslenskra heimila. Með réttri hagstjórn má bæði milda niðursveifluna og undirbyggja næsta hagvaxtarskeið.“

Dregið úr samkeppnisstöðu iðnfyrirtækja

Hár launakostnaður hefur verið mikið í umræðunni síðustu missera, þá sérstaklega í kringum kjarasamninga. Að sögn Sigurðar hafa launahækkanir hér á landi mældar í erlendri mynt verið miklar og langt umfram launahækkanir í helstu viðskiptalöndunum síðustu ár. Hefur þetta dregið verulega úr samkeppnisstöðu þeirra iðnfyrirtækja, sér í lagi þeirra sem eru í erlendri samkeppni. „Samtök iðnaðarins eru stærstu samtök atvinnurekenda á Íslandi með yfir 1.400 félagsmenn í býsna ólíkum greinum. Bygginga- og mannvirkjagerð er hjá okkur, allt frá hönnun að framkvæmdum. Síðan er það framleiðsluiðnaður eins og matvælaiðnaður, stóriðja og smærri iðnaður.

Svo er það hugverkaiðnaðurinn og undir það fellur t.d. kvikmyndaframleiðsla, líftækni, gagnaver og fleira. Í framleiðslu- og hugverkaiðnaði öðrum fremur er heilmikil erlend samkeppni. Hugverkaiðnaðurinn er auðvitað mikið að flytja út og samkeppnin er þá erlendis á meðan framleiðsluiðnaðurinn keppir bæði erlendis og innanlands við erlenda aðila. Þessi staðreynd gleymist gjarnan í umræðu um samkeppnismál. Launakostnaður á Íslandi er mjög hár í alþjóðlegum samanburði en hann er enn hærri í framleiðsluiðnaði. Hann er um 63% í hagkerfinu í heild en í framleiðsluiðnaði er hlutfallið 80%. Það segir sig sjálft að það er ekki mikið svigrúm fyrir fyrirtækin til að taka á sig launahækkanir sem bitnar þá beint á samkeppnishæfninni. Þetta minnir okkur á þá knýjandi þörf sem er fyrir hagræðingu í rekstri.“

Öll skip hækka á flóði 

Samkeppnishæfni Íslands hefur verið eitt af helstu áherslumálum SI á síðustu misserum en að mati Sigurðar skiptir miklu máli í því samhengi að stjórnvöld móti atvinnustefnu til framtíðar sem önnur stefnumótun taki mið af. „Þegar við tölum um samkeppnishæfnina þá er hún eðlilega mikið rædd út frá launum en hún snertir einnig fleiri svið. Þess vegna erum við að horfa á atvinnustefnu og hvetja stjórnvöld til að mynda slíka stefnu.

Við stöndum á ákveðnum tímamótum núna vegna þess að efnahagslegri endurreisn er lokið og hún tókst vonum framar. Núna er því akkúrat tími til að horfa fram á veginn og velta fyrir sér hvernig við getum aukið samkeppnishæfni Íslands þar sem samkeppnishæfni er einhvers konar heimsmeistarakeppni þjóða í lífsgæðum. Þeim mun betur sem við stöndum að vígi, þeim mun meiri verðmæti verða til sem við njótum öll góðs af.

Þess vegna hefur okkar áhersla verið öll á samkeppnishæfnina á síðustu misserum. Samkeppnishæfni snýst ekki bara um landsframleiðslu heldur um samspil margra ólíkra þátta. Við höfum farið í mikla stefnumótun innan okkar raða með þátttöku stjórnar, starfsmanna, félagsmanna og annarra sérfræðinga. Fyrr á árinu samþykkti stjórn samtakanna stefnu út árið 2021 sem miðar að því að efla samkeppnishæfni landsins þar sem horft er á fimm málaflokka til viðbótar við ímynd.

Fjórir þeirra getum við sagt að séu helstu stoðir framleiðni, þ.e. menntamál, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi sem eru þá skattar, regluverk og hagstjórn. Fimmta stoðin er svo umhverfis- og orkumál, ekki síst með áherslu á loftslagsmálin. Þetta eru því okkar áherslumál við að efla samkeppnishæfni landsins og hvetja stjórnvöld til dáða á því sviði. Lykilatriðið í þessu samhengi er atvinnustefna sem er rauði þráðurinn í annarri stefnumótun. Haustið 2018 gáfum við út skýrslu um atvinnustefnu sem byggir á þessari sömu hugsun, þ.e. að efla samkeppnishæfnina og bæta almenn skilyrði vegna þess að öll skip hækka á flóði.

Nú stendur yfir heilmikil stefnumótun hjá hinu opinbera í stórum málaflokkum og var slík stefnumótun boðuð í stjórnarsáttmálanum meðal annars í orkumálum, menntamálum, nýsköpun og innviðauppbyggingu. Það er fagnaðarefni að við séum komin á þennan stað að geta horft fram á veginn en vandinn er hins vegar sá að það er ekki sjálfgefið að það sé samræmi milli stefnumótunar í ólíkum málaflokkum heldur geta þær skarast á. Þess vegna höfum við lagt upp með að stjórnvöld móti atvinnustefnu sem allar hinar stefnurnar taka þá mið af, t.d. að stefna í orkumálum taki mið af atvinnustefnunni. Þannig er byrjað á réttum enda og rauður þráður kominn í stefnumótun stjórnvalda. Slík nálgun eykur skilvirkni og opinbert fé nýtist betur sem er í anda nýlegra ábendinga frá OECD.

Við þurfum að hafa það í huga að öll skilaboð sem koma frá stjórnvöldum hafa áhrif á ákvarðanir okkar hinna, bæði fyrirtækja og fólksins í landinu. Það kemur til af því að í hvert skipti eru stjórnvöld að senda ákveðin skilaboð hvernig þau sjá hlutina fyrir sér og aðrir geta þá tekið mið af því. Þess vegna er svo mikilvægt að skýr stefna liggi fyrir. Með slíkum skýrum skilaboðum til samfélagsins þá eru stjórnvöld einnig að hvetja atvinnulífið til fjárfestinga þar sem það liggur þá fyrir hvert stefnir en það er nákvæmlega það sem þarf um þessar mundir, þ.e. að hvetja fyrirtæki til fjárfestinga og almennt sé verið að fjárfesta í hagvexti framtíðarinnar. Nú þegar hagkerfið kólnar þurfum við að velta því fyrir okkur á hverju hagvöxtur framtíðar eigi að byggja og þá þarf fjárfestingu til.“

Heimatilbúinn vandi 

Talið berst að stöðunni á húsnæðismarkaði og í byggingageiranum enda heyrir sá geiri undir SI. Að mati Sigurðar þurfa bæði stjórnvöld og sveitarfélög að líta í eigin barm varðandi þá stöðu sem hefur ríkt á markaðnum í töluverðan tíma. „Langtímaþróunin miðað við spá Hagstofunnar um fólksfjölgun í landinu er sú að það þarf að byggja um 55.000 nýjar íbúðir á landinu til ársins 2050. Hagkerfið sveiflast vissulega eins og það gerir en þarna erum við að horfa yfir margar hagsveiflur svo stóra myndin er að það vantar miklu fleiri íbúðir á Íslandi. Þetta eru því tæplega 2.000 íbúðir sem þarf að byggja að meðaltali á ári næstu 30 ár. Þetta er áskorun fyrir samfélagið í heild sinni.

Á byggingarmarkaðnum er það auðvitað þannig að það eru mörg ráðuneyti sem koma að málunum þó þeim hafi vissulega fækkað. Við hefðum hins vegar viljað sjá frekari samþættingu með stofnun innviðaráðuneytis, sem felst ekki í nýju ráðuneyti heldur að húsnæðis- og byggingarmál og að einhverju leyti skipulagsmál fari inn í samgönguráðuneytið. Það eru tugir sveitarfélaga á landinu og embætti byggingarfulltrúa eru yfir 50 talsins sem leiðir til þess að regluverkið er túlkað á ólíkan hátt eftir svæðum. Slíkt eykur flækjustig auk þess sem regluverkið er óþarflega þungt. Góðu fréttirnar eru hins vegar að þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir eru að miklu leyti heimatilbúin þannig að við höfum það í hendi okkar að hrinda umbótum í framkvæmd.

Til skemmri tíma litið er ákveðinn markaðsbrestur á húsnæðismarkaðnum sem lýsir sér í því að eftirspurn er eftir hagkvæmum og ódýrari íbúðum sem ekki er verið að framleiða sem stendur. Þar þurfa ýmsir að líta í eigin barm en ekki síst sveitarfélögin þar sem þau hafa mikið um það að segja hvað er byggt og hvar.“

Sigurður vonast til þess að þær tillögur sem lagðar voru fram af átakshóp um húsnæðis- og byggingamál muni skila sér í aukinni skilvirkni en stjórnvöld þurfi hins vegar að fara í viðeigandi ráðstafanir svo þær verði að raunveruleika, meðal annars tillögur um stafræna afgreiðslu mála. „Fyrir um ári síðan var stofnaður átakshópur um húsnæðis- og byggingamál af stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins vegna þess að það var öllum ljóst að vandinn á húsnæðismarkaði var nátengdur stöðunni á vinnumarkaði því að þrátt fyrir að laun hafi hækkað þá fór stór hluti af aukningunni í húsnæðiskostnað, sérstaklega hjá þeim sem eru á leigumarkaði. Þessi hópur skilaði af sér í janúar um 40 tillögum sem munu sumar breyta miklu ef þær ná fram að ganga.

Til dæmis um stafræna afgreiðslu mála. Það skýtur vissulega skökku við að á sama tíma og verið er að tala um fjórðu iðnbyltinguna þá þurfa samtökin að vera með starfsmann sem keyrir um bæinn tvisvar á ári til þess að telja íbúðir og það eru áreiðanlegustu gögnin um fjölda íbúða í byggingu. Ef ferlið væri stafrænt þá væri sá vandi t.d. leystur. Við horfum því til stjórnvalda um að taka þessar tillögur og gera viðeigandi ráðstafanir og breyta lögum og reglugerðum til að bæta skilvirkni á markaðnum. Þetta mun auðvitað gerast yfir einhvern tíma en með aukinni skilvirkni ætti hagkvæmnin einnig að aukast sem ætti að skila sér í lægra verði.“

Nánar er rætt við Sigurð í bókinni 300 stærstu sem var að koma út. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér.