Kínversk stjórnvöld hyggjast borga þrjá milljarða Bandaríkjadala fyrir tíu prósenta eignahlut í bandaríska einkafjárfestingarsjóðnum Blackstone. Það er óstofnaður fjárfestingarsjóður kínverska ríkisins sem kaupir hlutinn og eru þau til marks um áhuga stjórnvalda í Kína að auka vægi annarra eigna en bandarískra ríkisskuldabréfa þegar kemur að samsetningu hins gríðarlega mikla gjaldeyrisforða landsins. Hlutverk hins óstofnaða fjárfestingarsjóðs verður að ávaxta þennan gjaldeyrisforða, en hann nemur 1,1 billjón Bandaríkjadala.

Kaup stjórnvalda í Peking á hlutnum í Blackstone fara fram samfara hlutafjárútboðs og skráningu bréfa einkafjárfestingasjóðsins á markað síðar á þessu ári. Stephen Schwarzman, aðalframkvæmdastjóri Blackstone, segir kaup Kínverjanna söguleg og að fjárfesting fjármögnuð með fé úr gjaldeyrissjóði landsins í slíku félagi sé til marks "um tímamót í þróun flæði fjármagns í heiminum".

Kínversk stjórnvöld fengu bréfin með 4,5% afslætti miðað við útboðsverð sökum þess að þeim fylgir ekki atkvæðaréttur. Breska blaðið Financial Times leiðir að því líkum að þetta sé gert til þess að koma í veg fyrir andstöðu bandarískra stjórnmálamanna gegn fjárfestingunni. Auk þess að stjórnvöld í Washington og Peking deili hart um gengi júansins og aðra þætti í milliríkjaverslun landanna hefur andstæðingum Kínverja á Bandaríkjaþingi fjölgað í kjölfar valdatöku demókrata. Það er til marks um að kínversk stjórnvöld vilji forðast að vekja tortryggni í Bandaríkjunum með fjárfestingum sínum að á sama tíma og tilkynnt var um kaupin þá lýstu þau yfir að sambærilegar fjárfestingar væru ekki yfirvofandi og að tekið yrði tillit til stjórnmálaþátta við mótun fjárfestingastefnu hins óstofnaða sjóðs.