Ingibjörg Guðmundsdóttir, varaforseti Alþýðusambands Íslands, segir að stjórnvöld hafi fullvissað ASÍ um að hjá þeim væri vilji til þess að skoða þær áherslur sem ASÍ hefur lagt fram vegna komandi kjaraviðræðna.

„Ég skil það þannig að það sé vilji hjá ríkisstjórninni að reyna að finna einhverja lausn,“ útskýrir hún. Hvort sú lausn muni að hugnast ASÍ eigi síðar eftir að koma í ljós, bætir hún við. Samningar á almennum vinnumarkaði losna um áramótin. Að sögn Ingibjargar mun undirbúningur kjaraviðræðna hefjast strax eftir áramót.

ASÍ kynnti ríkisstjórninni áherslur sínar í kjaraviðræðunum á sérstökum fundi nýverið. Í þeim áherslum kemur fram að ASÍ telji mikilvægt að við þessar aðstæður í efnahagsmálum verði gerður sáttmáli milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um samræmda stefnu í kjara-, efnahags-, atvinnu- og félagsmálum.