Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða gagnrýnir Seðlabankann og stjórnvöld fyrir hvernig tekist hafi verið á við hækkandi verðbólgu.

Seðlabankinn virðist hafa haft takmarkaða trú á eigin verðbólgumarkmiði. Ekki hafi verið ráðist í markvissar aðgerðir til að verja gengi krónunnar eða leyft áhrifum stýrivaxtahækkana að koma fram áður en ráðist var í frekari vaxtahækkanir. Það skorti á skýrari leiðsögn frá Seðlabankanum sem eigi ekki að tala niður eigin aðgerðir.

„Ekki hjálpar svo mikill hallarekstur ríkissjóðs og virðast stjórnvöld vera búin að gefast upp á því að reyna að rétta þann rekstur af. Staðan á vinnumarkaði gerir svo lítið til að bæta stöðuna þar sem ítrekað er samið um launahækkanir umfram það sem framleiðniaukning landsins býður upp á,“ skrifar Jón.

Samkvæmt fjárlögum verður 120 milljarða halli á ríkissjóði og gert er ráð fyrir hallarekstri hjá ríkissjóði út árið 2027 hið minnsta, samkvæmt gildandi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Nánar er fjallað um afkomu og fjárfestingar Stoða í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudaginn.