Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir Sindra Sigurgeirsson, formann Bændasamtakanna, ekki hafa farið með rétt mál í ræðu á Búnaðarþingi í byrjun mánaðarins. Í grein sem Ólafur skrifar í Viðskiptablaðið í dag bendir hann á að Sindri hafi í ræðu sinni á þinginu sakað talsmenn verslunarinnar um að beita blekkingum og að þrátt fyrir stóraukinn innflutning á kjöti hefði verð hækkað. Enn fremur hefði Sindri sagt að þegar íslenskar vörur væru ekki til væri erlent kjöt flutt til landsins án tolla.

„Þannig er það einmitt ekki," skrifar Ólafur. „Í nýlegri skýrslu starfshóps landbúnaðarráðherra, þar sem bæði FA og Bændasamtökin áttu fulltrúa, stendur skýrlega að þrátt fyrir að tollar séu lækkaðir þegar skortur er á innlendri vöru, eru þeir samt sem áður umtalsverðir. Þannig nemur tollvernd um helmingi verðsins á innfluttu kjúklingakjöti, þriðjungi verðs svínakjöts og fjórðungi af verði nautakjöts. Það er því ekki að furða að verðið lækki ekki þótt meira sé flutt inn. Stjórnvöld halda því háu með því að leggja áfram á tolla, þrátt fyrir skort."

Grein Ólafs Stephensen birtist  í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .