*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 30. janúar 2017 07:50

Stjórnvöld harma tilskipun Trump

Íslensk stjórnvöld harma tilskipun Donald Trump, um bann við landgöngu flóttafólks til Bandaríkjanna. Guðlaugur Þór Þórðarson segir tilskipunina áhyggjuefni.

Ritstjórn
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hefur sent frá tilkynningu fyrir hönd íslenskra stjórnvalda, þar sem lýst er yfir þungum áhyggjum yfir því hvaða afleiðingar tilskipun Donald J. Trump, Bandaríkjaforseta kunni að hafa. 

Tilskipun Trump varðar bann við landgöngu flóttafólks og borgara sjö ríkja til Bandaríkjanna. Ríkin sjö eru: Sýrland, Írak, Íran, Sómalía, Súdan og Jemen.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að þessi tilskipun sé mjög fjarri því sem við höfum átt að venjast frá Bandaríkjunum, og það sé áhyggjuefni. „Ég tel það fjarri lagi að bann við komu flóttafólks og íbúa ákveðinna ríkja sé besta leiðin til að tryggja öryggi Bandaríkjanna, sem er yfirlýst markmið tilskipunarinnar," segir utanríkisráðherra.

Í innflytjendum og flóttafólki felst mannauður og reynsla

Jafnframt tekur utanríkisráðherra fram að öryggissjónarmið skipta þegar miklu máli og hryðjuverkaógnin á Vesturlöndum fari vaxandi. „En að loka landamærum fyrir fólki sem er á flótta undan stríði, og gera upp á milli fólks á grundvelli þjóðernis eða trúar, getur ekki verið rétta leiðin og gefur röng skilaboð,“ segir Guðlaugur Þór. „Í innflytjendum og flóttafólki felst framar öðru mannauður og fjölbreytt reynsla sem er til þess fallin að auðga samfélög.“

Guðlaugur Þór segir jafnframt að íslenskir ríkisborgarar, sem upprunir eru frá einhverjum þessara landa sem falli undir tilskipun Bandaríkjaforseta, muni hljóta fullan stuðning íslensku ríkisstjórnarinnar komi til þess að þeim verði meinuð innganga í Bandaríkin á grundvelli uppruna síns. Þá muni íslensk stjórnvöld koma athugasemdum og afstöðu á framfæri við bandarísk stjórnvöld með skýrum hætti.