Stjórnvöld í Bandaríkjunum eru helsta vandamál Bandaríkjanna. Þetta er niðurstaða skoðanakönnunar sem Gallúp framkvæmir mánaðarlega í Bandaríkjunum.

Að meðaltali sögðu 16% að stjórnvöld væru helsta vandamálið. Þetta er annað árið í röð sem að stjórnvöld sitja í efsta sæti listans, en í fyrra sögðu 18% að stjórnvöld væru helsta vandamálið.

Í öðru sæti listans, annað árið í röð, yfir helsta vandamál þjóðarinnar var efnahagurinn, en 13% sögðu hann mesta vandamálið. Að meðaltali sögðu 17% Bandaríkjamanna efnahaginn vera helsta vandamálið í fyrra. Efnahagurinn var helsta vandamál Bandaríkjamanna á árunum 2008 til 2013, en þegar mest var sögðu 40% efnahaginn vera helsta vandamálið.

Í þriðja sæti í ár var atvinnuleysi með 8%. Atvinnuleysi hefur verið í þriðja sæti þrjú ár í röð en þó dregur verulega úr þeim sem telja það helsta vandamálið, en í fyrra sögðu þetta 15%. Innflytjendamál voru í fjórða sæti, en þau mældust einnig með 8%.

Athygli vekur að hryðjuverk voru einungis nefnd að meðaltali 5% yfir árið, en í kjölfar árásanna í París og San Bernardino í nóvember hækkaði sú tala verulega og var 16% í byrjun desember.

Á árunum fyrir hrun var Írak helsta vandamál þjóðarinnar, fjögur ár í röð eða frá 2004 til 2007.