Þann 6. október 2008 gáfu stjórnvöld út yfirlýsingu þess efnis að ótakmörkuð ábyrgð væri gefin á innlendum innstæðum. Nú er íhugað að draga þessa yfirlýsingu til baka. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðuneytis við fyrirspurn Fréttablaðsins um málið. Þar segir að tímabært sé að huga að því á næstu misserum hvenær og með hvaða hætti yfirlýsingin verði dregin til baka, enda stóð aldrei til að hún yrði nema tímabundin.

Með yfirlýsingunni voru á sínum tíma innstæður gerðar að forgangskröfum sem þýddi að eignir föllnu bankanna fóru fyrst í að mæta innstæðum, áður en aðrir kröfuhafar fengu sínar greiðslur. Ríkissjóður hefur á grundvelli þessarar yfirlýsingar þurft að greiða háar upphæðir, meðal annars vegna Sparisjóðs Keflavíkur.