Stjórnvöld í afríska ríkinu Angóla ætla að eyðileggja ellefu milljónir eggja sem smyglað var inn í landið nýlega, að sögn landbúnaðarráðherra landsins. BBC News greinir frá málinu.

Landbúnaðarráðherrann Afonso Pedro Canga sagði í samtali við ríkisfjölmiðil landsins að ekkert opinbert heilbrigðisvottorð hefði fylgt eggjunum við innflutning í landið. Því komi ekkert annað til greina en að eyðileggja matvælin. Hann sagði ekki hvaðan eggin komu en stjórnvöld þar í landi haldlögðu varninginn í höfuðborginni Luanda.

Skortur hefur verið á eggjum í Angóla en stjórnvöld sögðust í janúar síðastliðnum hafa það að markmiði að auka neyslu almennings á matvælum sem framleidd eru innanlands. Canga mætti hins vegar nýlega á landbúnaðarráðstefnu í borginni Lubango, þar sem hann sagði framleiðslu á eggjum nú vera að nálgast eftirspurn.

Alls lögðu stjórnvöld hald á 26 gáma sem allir voru fullir af eggjum. Var hver þeirra tólf metra langur, að sögn ríkisfjölmiðilsins Jornal de Angola.