Stjórnvöld í Bólivíu vinna nú að því að ríkisvæða raforkuflutningskerfi landsins. Reksturinn hefur frá einkavæðingu þess fyrir fimmtán árum verið í eigu fyrirtækisins Red Eléctrica Corporacion. Fyrirtækið er í eigu Spánverja og heldur jafnframt utan um raforkukerfi Spánar. Spænska ríkið á fimmtungshlut í Red Eléctrica Corporacion.

Þessi gjörningur hefur ekki farið vel í Spánverja, ekki síst fyrir þær sakir að þetta er önnur ríkisvæðing á spænsku fyrirtæki í Suður-Ameríku í síðasta mánuði. Skemmst er að minnast þess að stjórnvöld í Argentínu ollu millilandadeilu eftir að ríkið tilkynnti um áform um yfirtöku á 51% hlut í olíufyrirtækinu YPF. Stjórnvöld á Spáni voru allt annað en sátt og kölluðu sendiherra sinn í Argentínu heim í kjölfarið.

Í netútgáfu breska dagblaðsins Guardian er haft eftir Evo Morales, forseta Bólivíu, að ríkið eigi að endurheimta hlut sinn þar sem spænska fyrirtækið hafi fjárfest fyrir lága fjárhæð síðan raforkuflutningskerfið var einkavætt árið 1997. Salan hafi því ekki þjónað tilgangi sínum. Þetta eru svipuð rök og Cristina Kirchner, forseti Argentínu, beitti fyrir sig þegar hún tilkynnti um yfirtökuna á YPF.