Samkomulag um afborganir af skuldabréfi milli Landsbanka Íslands og slitastjórnar LBI stórauka líkurnar á því að höftum verði aflétt innan hæfilegs tíma, að mati greiningadeildar Arion.

Greiningadeildin segir þó að það veki athygli að lenging bréfsins sé þó háð því að stjórnvöld veiti búinu undanþágu til útgreiðslu eigna, en stjórnvöld hafi ítrekað sagt að leysa þurfi vanda búanna heildstætt. Af því verði ekki annað ráðið en að hæpið sé að Landsbankanum sé einum veitt undanþága, þrátt fyrir að vera kominn með sitt á þurrt.

„Við teljum því að stjórnvöld séu nú í dauðafæri að ná samkomulagi við kröfuhafa allra bankanna um hvernig uppgjöri þeirra verður háttað, en lenging Landsbankabréfsins er mikilvægt innlegg í slíkt samkomulag. Á sama tíma hefur lenging bréfsins gert greiðslujöfnuð landsins mun viðráðanlegri, sem dregur úr þörfinni á því að ganga mjög hart fram gagnvart erlendum kröfuhöfum bankanna og öðrum aflandskrónueigendum,“ segir greiningadeildin.

Greiningadeild Arion banka telur að þar til höftum verði aflétt ætti lenging Landsbankabréfsins að hafa það í för með sér að greiðslujöfnuður þjóðarbúsins stórbatni, en það merkir að þrýstingur á krónuna verði minni fyrir vikið. Líkur á gengisveikingu og aukinni verðbólgu séu því mun minni til skamms tíma litið. Á sama tíma gæti aðgerðin aukið á traust almennings og fjárfesta (bæði innlendra og erlendra) og þar með ýtt undir umsvif í gegnum væntingafarveg hagkerfisins. Það gæti því dregið eitthvað úr þörfinni á slöku vaxtaaðhaldi til stuðnings hagkerfinu.

„Þegar höftum verður aflétt má sem fyrr búast við einhverri veikingu krónunnar og einhverri hækkun vaxtastigs, en lenging Landsbankabréfsins dregur stórlega úr líkunum á því að þessar sveiflur verði stórar. Það á sérstaklega við ef vel verður haldið á spilunum gagnvart kröfuhöfum og aflandskrónueigendum, en ef vel tekst til við að vinda frekar ofan af stöðu þessara aðila í auðseljanlegum krónueignum er óvíst að afnám hafta muni hafa veruleg neikvæð skammtímaáhrif á innlenda hagkerfið yfir höfuð. Útflæði innlendra aðila mun eftir sem áður velta verulega á framkvæmd afléttingarinnar,“ segir greiningadeild Arion banka.