Ríkisstjórn Malasíu hefur kynnt áform sín um stofnun nýs ríkisflugfélags sem heita mun Flymojo, en BBC News greinir frá þessu. Þar kemur fram að malasísk stjórnvöld hafi skrifað undir 1,5 milljarða dala samning við Bombardier um kaup á tuttugu nýjum flugvélum.

Miklar hörmungar hafa átt sér stað í flugheimi Malasíu á undanförnum mánuðum. Í marsmánuði í fyrra hvarf flugvél á vegum Malaysia Airlines á leið sinni frá Kuala Lumpur til Peking og hefur ekki fundist síðan. Þá var flugvél á vegum félagsins skotin niður í júlímánuði af rússneskum aðskilnaðarsinnum í Úkraínu. Loks brotlenti vél á vegum lággjaldaflugfélagsins AirAsia á leið sinni frá Indónesíu til Singapor í desember síðastliðnum.

Malaysia Airlines er að öllu leyti í eigu malasíska ríkisins og hafa stjórnvöld þar í landi því þurft að bregðast við þessum hörmungum með einhverjum hætti, þar sem eftirspurn eftir flugferðum á vegum flugfélaga landsins dróst mikið saman í kjölfar þessara atvika. Hafa þau því brugðið á það ráð að stofna nýtt flugfélag, Flymojo, til þess að endurheimta traust almennings.

Flugvélarnar sem pantaðar hafa verið frá Bombardier eru af gerðinni CS100 og taka 125 manns í sæti. Flymojo verður fyrsta flugfélagið á þessu svæði sem tekur vélarnar í notkun, en það mun einnig hafa möguleika á því að kaupa tuttugu vélar í viðbót, sem hækka myndi virði samningsins upp í 2,9 milljarða dala.