Félag atvinnurekenda (FA) gagnrýnir harðlega þeim áformum sem koma fram í nýju frumvarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um að hverfa tímabundið aftur til eldra fyrirkomulags á útboði tollkvóta fyrir búvörur. Telur félagið að efni frumvarpsins skerða hag innflutningsfyrirtækja og neytenda. Þetta kemur fram á vef FA .

Þessi breyting muni þýða að útboðsgjald, sem innflytjendur greiða fyrir heimildir til að flytja inn búvörur án tolla, hækki. Slíkt muni leiða til hækkunar á verði innfluttra búvara og jafnframt á innlendri búvöru, sem þannig hafi minni samkeppni.

„Fyrsta útboðið á tollkvótum samkvæmt tollasamningi við Evrópusambandið með nýrri aðferð, svokölluðu jafnvægisútboði, var haldið síðastliðið vor. Útboðsgjald vegna flestra tegunda búvara lækkaði við það frá síðasta útboði sem fram fór með eldri aðferð í lok árs 2019,“ segir í frétt FA og vísað er í samanburð á töflu sem nálgast má í frétt FA.

Í greinargerð með nýja frumvarpinu SÉ nauðsyn breytingarinnar rökstudd með því að innlend landbúnaðarframleiðsla hafi fengið á sig högg vegna kórónaveirukreppunnar, þar sem ferðamönnum hafi fækkað og eftirspurn eftir búvörum því minnkað, en innflutningur haldist svipaður.

„Því er afar líklegt að samdráttur í eftirspurn landbúnaðarafurða vegna fækkunar erlendra gesta lendi á miklu leyti á innlendri framleiðslu með tilheyrandi samdrætti í afurðatekjum. Nauðsynlegt þykir að takmarka áhrif kórónuveirufaraldursins og draga úr því tjóni sem innlendir framleiðendur hafa nú þegar orðið fyrir," segir í greinargerð með frumvarpinu.

Þá bendir FA á að Kristján Þór Júlíusson hafi fyrir rúmu ári lagt fram frumvarpið sem kvað á um upptöku jafnvægisútboðs. Í greingagerð með umræddu frumvarpi sagði að markmiðið með breytingunni væri að „stuðla að auknum ábata neytenda og aukinni samkeppni á markaði með landbúnaðarvörur, en jafnframt að gæta að hagsmunum innlendra framleiðenda."

Hafa eigi ávinninginn aftur af neytendum

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að það sé því augljóslega markmiðið með því að hverfa frá breytingunni að hafa af neytendum þann ávinning sem þeir hafi haft af aukinni samkeppni. Með því sé stuðlað að hærra verði á matvöru á sama tíma og atvinnuleysi sé í sögulegu hámarki og fjöldi fólks nái ekki endum saman.

„Þetta frumvarp er með miklum ólíkindum. Fjöldi atvinnugreina hefur fengið mikinn skell vegna kórónaveirukreppunnar, en stjórnvöld hafa ekki gripið til sértækra aðgerða til að vernda einstakar greinar fyrir samkeppni, heldur vísað fyrirtækjum á almenn úrræði svo sem styrki og lán. Í tilviki landbúnaðarins á hins vegar að hindra samkeppni í greininni og láta innflutningsverslun og neytendur borga. Þetta er enn eitt dæmið um að stjórnvöld virðast í vasanum á sérhagsmunum í landbúnaði," segir Ólafur í frétt FA.