Græn upprunavottorð fyrir raforku ganga kaupum og sölum, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Landsvirkjun og Orka náttúrunnar láta upprunavottorð fylgja með öllu smásölurafmagni. Vottorðunum er ætlað að gera framleiðslu á grænni orku arðbærari.

Fjöldi alþjóðlegra stórfyrirtækja leggur í auknum mæli áherslu á umhverfismál. Í takt við þessar áherslur leitast þau mörg við að nota grænt rafmagn, rafmagn sem er framleitt með sem minnstum útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Á Íslandi virðist þetta nokkuð auðvelt, þar sem nánast allt rafmagn sem framleitt er hérlendis er í þessum skilningi grænt – þó svo að bæði vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir mæti andstöðu af öðrum umhverfisástæðum. Þegar rafmagn er hins vegar keypt af stóru, sameiginlegu neti Evrópu er erfitt að sundurgreina hvaða rafmagn er grænt og hvað ekki.

Skrásetja framleiðsluna

Til að mæta þessu hafa fyrirtæki nokkra valmöguleika, eins og til dæmis að framleiða sitt eigið rafmagn með umhverfisvænum hætti. Það stendur þó ekki öllum til boða. Þess vegna er hægt að kaupa svokölluð upprunavottorð af þeim sem framleiða grænt rafmagn og „beina“ þannig grænni raforku til kaupandans. Eitt þeirra fyrirtækja sem miðlar þessum upprunavottorðum er ECOHZ. Tom Lindberg, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, var meðal ræðumanna á Charge-ráðstefnunni í Hörpu í október.

„Upprunavottorðin gera raforkuframleiðanda kleift að halda utan um og skrásetja sína framleiðslu sem hann setur svo inn á raforkunetið,“ segir Tom Lindberg. „Þannig verður til rafrænt skjal með upplýsingum um rafmagnið sem var framleitt. Þessu kerfi var komið á fót í Evrópu og Bandaríkjunum til að gefa neytendum val. Þú getur ekki sundurgreint grænt rafmagn frá öðru rafmagni þegar það kemur út úr dósinni eða þegar þú kveikir ljósið en þú getur það í framleiðslunni.“

Þegar kerfinu var komið á fót í Evrópu var ekki ljóst að markaður með upprunavottorð myndi líta dagsins ljós. Sú varð þó raunin. „Hugmyndin var að þetta myndi gera fólki kleift að velja. Hvort fólk væri tilbúið að borga fyrir það var ekki ljóst. Á markaði myndi fólk þannig gefa skilaboð um það hvort það sé eftirsóknarvert að upprunavotta grænt rafmagn og hvort það sé í þeirra huga verðmætara en rafmagn búið til með til dæmis kolum eða kjarnorku. Og það hefur reynst raunin. Verðið á upprunavottuðu rafmagni hefur hægt en örugglega farið hækkandi undanfarin ár. Verðið er þó ekki nógu hátt til að endurspegla raunverulegt verðmæti grænnar orku.“

Markmiðið með kerfinu er til dæmis að gera græna orku verðmætari og hagkvæmari og hvetja þannig raforkuframleiðendur til að leggja aukna áherslu á að framleiða grænt rafmagn.

Upprunavottað, grænt rafmagn hefur því að mati Tom skilað þeim árangri að fyrirtæki sem vilja takast á við umhverfismál með þessum hætti hafa betri tækifæri til þess. Á hinn bóginn hafa íslenskir raforkuframleiðendur fram til þessa selt upprunavottorð úr landi með þeim afleiðingum að aðrir kaupendur raforku, sem ekki kaupa upprunavottorð, nota í augum þessa kerfis ekki grænt rafmagn – jafnvel þótt raforkukerfið á Íslandi sé lokað kerfi og engin leið að flytja það milli landa.

„Þetta getur verið erfitt að skilja. Í Evrópusambandinu og Bandaríkjunum er þetta stefnumarkandi tæki sem er ekki endilega í reynd tengt raunverulegu flæði raforku. En staða Íslands er dálítið sérstök í þessu samhengi. Þetta veldur samt ákveðinni vitundarvakningu meðal fólks um hvers virði endurnýjanleg raforka er í rauninni,“ segir Tom

Breytt fyrirkomulag upprunavottorða frá síðustu áramótum

Svavar Svavarsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá HB Granda, segir það hafa komið fyrirtækinu nokkuð í opna skjöldu á sínum tíma þegar það fékk yfirlýsingu þess efnis að um 60% þess rafmagns sem fyrirtækið notaði væri framleitt með til dæmis kolum eða kjarnorku. Í fyrra var þessi tala nær 80%. Svavar telur að með sölu upprunavottorða úr landi séu íslenskir raforkukaupendur settir í erfiða stöðu og að evrópskir raforkuframleiðendur komist undan því að skipta yfir í græna orku.

„Við höfum gert dálítið í því að draga úr kolefnisspori fyrirtækisins. Það er langtímaverkefni en við höfum getað hampað því að aðalverksmiðjan okkar sem framleiðir fiskimjöl og lýsi á Vopnafirði gengur á rafmagni og hefur gert í sjö ár,“ segir Svavar. Hann segir viðskiptavini HB Granda ekki ennþá leggja áherslu á að vörur fyrirtækisins séu framleiddar með grænum rafmagni en á von á því að kröfur um það muni aukast. „Við sjáum hins vegar fram á það og erum með verkefni sem við köllum „Hrein virðiskeðja sjávarútvegs“. Hún er miðuð að því að í framtíðinni veitum við viðskiptavinum okkar upplýsingar um kolefnisspor okkar vöru. Það verður mjög mikilvægt varðandi matvöru, sérstaklega ef kauphegðun fólks breytist í takt við þetta, sem við höfum trú á að verði. En við erum ekki komin þangað,“ segir Svavar.

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur og Orku náttúrunnar, ON, segir að frá síðustu áramótum þurfi þeir sem eru á smásölumarkaði með raforku, það er allir nema stóriðja, ekki að hafa áhyggjur af upprunavottorðum. Þau muni fylgja allri raforkusölu Orku náttúrunnar á almennum markaði frá síðustu áramótum. Með ákvörðun ON hverfur jarðefnaeldsneyti og kjarnorka af rafmagnsreikningum almennra viðskiptavina. Uppruni raforku á reikningum ON sem birtast viðskiptavinum á næsta ári verður því alfarið endurnýjanleg orka.

Magnús Þór Gylfason, yfirmaður samskiptasviðs Landsvirkjunar, tekur í sama streng. „Allt rafmagn sem Landsvirkjun vinnur og afhendir til sölufyrirtækja, sem selja áfram til heimila, stofnana og smærri fyrirtækja, en ekki stóriðju, er nú vottað sem 100% endurnýjanleg raforka. Það gleymist stundum í umræðunni að þessu kerfi er ætlað að sporna gegn auknum gróðurhúsaáhrifum, með því að auka tekjur til þeirra sem vinna orku með endurnýjanlegum orkugjöfum og hvetja þannig til aukinnar vinnslu endurnýjanlegrar orku í Evrópu,“ segir Magnús Þór.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .