„Nauðsynlegt er að stjórnvöld liðki fyrir skráningu félaga á markað,“ segir Brynjar Örn Ólafsson hagfræðingur í samtali við Viðskiptablaðið.

Í Viðskiptablaðinu í gær birtist grein eftir Brynjar sem ber heitið Væntingar um Marel hf . Er þar vöxtur félagsins undanfarin þrjú ár rakinn.

„Virði félagsins var 350 milljarðar króna við lok viðskipta síðastliðinn þriðjudag eða 35% af heildarvirði skráðra hlutabréfa og 10% af heildarvirði allra skráðra verðbréfa í Kauphöllinni. Virði þess jafnast á við virði allra skráðra fyrirtækjaskuldabréfa, er 90 milljörðum frá virði allra óverðtryggðra ríkisskuldabréfa, og 130 milljörðum meira en öll útlán stóru viðskiptabankanna til ferðaþjónustu,“ segir í greininni en þar er einnig rakið að félagið vegi meira en helming í úrvalsvísitölunni.

Í vikunni var sagt frá því að talsverð umframeftirspurn hafi verið eftir hlutum í Arion banka þegar Kaupþing seldi tíu prósent hlut í bankanum. Algengt var að lífeyrissjóðir svo og íslenskir verðbréfasjóðir fengju um þriðjung til helming af því sem þeir sóttust eftir.

„Samhliða því að liðka fyrir skráningu á markað þurfa stjórnvöld að grípa til aðgerða til að hvetja til fjárfestingar í hlutabréfum, aðgerða á borð við skattaafslátt sem tíðkast í Svíþjóð,“ segir Brynjar.