Í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins (SA) sagði Ingimundur Sigurpálsson, formaður samtakanna það mikilvægt að halda áfram að nýta orkulindir landsins á þann hátt, sem á hverjum tíma er talið samræmast markmiðum í efnahagsmálum og náttúruvernd.

„Stjórnvöld verða að standa vörð um þá hagsmuni þjóðarinnar, að ekki verði lagðar hömlur á eðlilega nýtingu náttúruauðlinda hér á landi með alþjóðlegu loftslagssamkomulagi eftir árið 2012,“ sagði Ingimundur.

Hann sagði það vera með öllu óásættanlegt að skerða sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar um nýtingu eigin auðlinda með slíku samkomulagi, þar sem viðurkennt er, að orkuframleiðsla úr endurnýjanlegum orkulindum, sem ekki gefur frá sér gróðurhúsalofttegundir, sé eftirsóknarverð í alþjóðlegu tilliti.

„Öll ríki, sem aðild eiga að Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna, gæta þar eigin hagsmuna og á annað ekki að koma til greina en að sama gildi um Ísland,“ sagði Ingimundur.